Enski boltinn

Smalling og Huntelaar fengu gríðarlegt höfuðhögg

Chris Smalling varnarmaður enska landsliðsins og Englandsmeistaraliðs Manchester United lenti í miklu samstuði á Wembley í gærkvöld.
Chris Smalling varnarmaður enska landsliðsins og Englandsmeistaraliðs Manchester United lenti í miklu samstuði á Wembley í gærkvöld. AFP
Chris Smalling varnarmaður enska landsliðsins og Englandsmeistaraliðs Manchester United lenti í miklu samstuði á Wembley í gærkvöld í vináttuleik gegn Hollendingum. Eins og sjá má á myndinni fengu hollenski framherjinn Klaas-Jan Huntelaar og Smalling báðir gríðarlegt höfuðhögg þegar þeir skullu saman þegar sá fyrrnefndi skoraði annað mark Hollands í 3-2 sigri liðsins.

Smalling og Huntelaar lágu báðir í grasinu eftir óhappið og blæddi töluvert mikið úr nefi og munni Huntelaar sem leikur með Schalke 04 í Þýskalandi. Sjúkrateymi enska landsliðsins var lengi að hlúa að Smalling áður en hann var borinn af velli. Huntelaar var fljótari að jafna sig og virtist hann ekki vera mjög sáttur við að þurfa að fara af velli – og reifst hann við aðstoðarmenn liðsins við hliðarlínuna.

Huntelaar spýtti blóði og mikið gras var einnig í munni hans strax eftir atvikið.

Ekki er vitað hvort meiðsli þeirra séu alvarleg en þeir voru báðir fluttir á sjúkrahús til nánari skoðunar. Stuart Pearce, sem stýrði enska landsliðinu í gær, sagði eftir leikinn að Smalling hafi verið með meðvitund þegar hann fór á sjúkrahúsið og stór skurður væri á höfði hans eftir höggið.

Bert van Marwijk, þjálfari hollenska landsliðsins, sagði að Huntelaar hefði litið betur út í búningsklefa liðsins eftir leikinn. „Við sendum hann á sjúkrahús til öryggis," sagði Marwijk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×