Enski boltinn

Tottenham lenti undir en komst örugglega áfram í enska bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Tottenham er komið áfram í átta liða úrslit enska bikarsins eftir 3-1 sigur á C-deildarliðinu Stevenage á White Hart Lane í kvöld en þetta var endurtekinn leikur. Tottenham lenti undir í byrjun leiks en vann að lokum öruggan sigur sem færir liðinu heimaleik á móti Bolton í átta liða úrslitunum.

Gareth Bale lagði upp öll þrjú mörk Tottenham í leiknum en

Jermain Defoe skoraði tvö þeirra.

Stevenage fékk draumabyrjun þegar Ryan Nelson felldi Joel Byrom inn í teignum og hinn síðarnefndi tók vítið sjálfur og kom Stevenage í 1-0 eftir aðeins fjórar mínútur.

Ekki batnaði ástandið fyrir Tottenham þegar Michael Dawson fór meiddur af velli eftir aðeins níu mínútna leik.

Jermain Defoe tókst hinsvegar að jafna metin í 1-1 á 26. mínútu eftir sendingu frá Gareth Bale.

Gareth Bale fiskaði víti á 55. mínútu sem Emmanuel Adebayor skoraði af öryggi úr og Jermain Defoe innsiglaði síðan sigurinn með því að skora þriðja markið á 75. mínútu eftir sendingu frá Bale.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×