Enski boltinn

Arsenal aldrei tapað fjórum í röð undir stjórn Wenger

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger og Owen Coyle.
Arsene Wenger og Owen Coyle. Nordic Photos / Getty Images
Þó svo að leikmenn og stuðningsmenn Arsenal hafi fundist það ansi súrt í broti að þurfa að sætta sig við markalaust jafntefli við Bolton í kvöld var stigið þó kærkomið fyrir stjórann Arsene Wenger. Liðið hefur aldrei tapað fjórum deildarleikjum í röð undir hans stjórn.

Arsenal hafði tapað síðustu þremur leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni fyrir leikinn í kvöld undir stjórn Wenger sem tók við árið 1996. Síðast gerðist það í mars árið 1995.

En liðið féll í sjöunda sæti deildarinnar í kvöld og það voru fáir Arsenal-menn sáttir eftir leikinn - allra síst Wenger sjálfur. „Það er leiðinlegt að hafa ekki skorað þrátt fyrir að við sköpuðum okkur 6-7 góð færi í kvöld. Á hinn bóginn var það jákvætt að halda hreinu. Við verðum að vona að sú staðreynd að við töpuðum ekki hafi gefið okkur aukið sjálfstraust."

Hann heldur þó í von um að ná einu af fjórum efstu sætum deildarinnar og þar með þátttökurétt í Meistaradeildinni. „Við höfum trú á því og löngunin er til staðar. Það er mikill slagur fram undan en við erum tilbúnir fyrir hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×