Enski boltinn

Gerrard: Við höfum allir saknað Suarez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard og Luis Suarez .
Steven Gerrard og Luis Suarez . Mynd/Nordic Photos/Getty
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, fagnar því að Luis Suarez sé búinn að taka út átta leikja bann og verði með liðinu á móti Tottenham á mánudagskvöldið. Suarez hefur ekki spilað með Liverpool á þessu ári en liðið vann 4 af 8 leikjum án hans og sló bæði Manchester-liðin út úr sitt hvorri bikarkeppninni.

Liverpool er eins og er í sjötta sæti deildarinnar, framundan er úrslitaleikur deildarbikarsins í lok mánaðarins sem og leikur í fimmtu umferð ensku bikarkeppninnar. Gerrard segir að endurkoma Suarez gefi liðinu aukakraft.

„Luis getur hjálpað okkur að ná markmiðum okkar sem var að vera meðal fjögurra efstu liðanna og komast í tvo bikarúrslitaleiki. Ég er viss um að hann gerir það því hann er súper leikmaður," sagði Steven Gerrard.

Liverpool er eins og er fjórum stigum á eftir Chelsea sem situr í fjórða sætinu. Liverpool vann 3-0 sigur á Wolves í vikunni og hefur skorað 2 mörk eða meira í síðustu fjórum leikjum sínum eftir mikið markaleysi lengst af í vetur.

„Luis er búin að sýna það undanfarna tólf mánuði að hann er einn af bestu leikmönnum í heimi. Auðvitað viljum við að slíkir leikmenn verði með okkur. Við höfum allir saknað hans og allir leikmennirnir bíðir spenntir eftir að fá hann til baka inn í liðið," sagði Gerrard.

Leikir Liverpool án Luis Suarez:

3. janúar - Man City (Deildin) 0-3 tap

6. janúar - Oldham (Enski bikarinn) 5-1 sigur

11. janúar - Man City (Deildabikar) 1-0 sigur

14. janúar - Stoke (Deildin) 0-0 jafntefli

21. janúar - Bolton (Deildin) 1-3 tap

25. janúar - Man City (Deildabikar) 2-2 jafntefli

28. janúar - Man United (Enski bikarinn) 2-1 sigur

31. janúar - Wolves (Deildin) 3-0 sigur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×