Enski boltinn

Dalglish: Bannið gæti hjálpað Luis Suarez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez með dóttur sína á Anfield.
Luis Suarez með dóttur sína á Anfield. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, trúir því að átta leikja bannið hans Luis Suarez muni hjálpa Úrúgvæmanninum að halda sér ferskum og heilum til loka tímabilsins. Luis Suarez er nú búinn að taka út bannið og spilar væntanlega sinn fyrsta leik á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á mánudagskvöldið.

„Við verðum að horfa á jákvæðu hliðarnar burt séð frá því sem hefur gerst áður. Við munum því gera það," sagði Kenny Dalglish.

Luis Suarez hefur spilað 62 leiki frá því í byrjun síðasta tímabils. Hann lék með Úrúgvæ í Suður-Ameríkubikarnum í sumar og var aðeins búinn að missa af tveimur leikjum Liverpool í öllum keppnum á þessu tímabili.

Dalglish leyfði Suarez að taka stutt frí frá æfingum í janúar en er viss um að Suaraz sé klár í að koma strax inn af fullum krafti.

„Hann er búinn að vera æfa í nokkrar vikur og hefur haldið sér í formi. Það er frábært fyrir okkur að fá hann til baka," sagði Dalglish.

„Ég verð samt að taka mið af mörgum hlutum. Suarez hefur ekki spilað í heilan mánuð og að aðrir leikmenn liðsins hafa staðið sér mjög vel í fjarveru hans," sagði Dalglish.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×