Enski boltinn

Grayson felldi tár þegar hann fór frá Elland Road

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Simon Grayson hefur kvatt Leeds í bili.
Simon Grayson hefur kvatt Leeds í bili. Nordic Photos / Getty Images
Simon Grayson var í vikunni rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Leeds en hann segir að tíðindin hafi komið sem mikið reiðarslag.

Grayson byrjaði að styðja Leeds sem barn og hóf leikmannaferilinn sinn þar. Hann náði þó að spila aðeins tvo leiki með aðalliðinu áður en hann var látinn fara. Það var fyrir 20 árum síðan.

„Ég var með tárvot augu þegar ég fór fyrir 20 árum síðan og svo aftur þegar ég fór í gær," sagði Grayson í viðtali við enska fjölmiðla í dag. „Eini munurinn er að þá var ég með einn svartan ruslapoka með mér þegar ég fór en nú var ég með þrjá."

„Það vita allig hverjar mínar tilfinningar eru gagnvart þessu félagi. Það hafa verið svo margar frábærar stundir á þessum þremur árum sem ég stýrði liðinu. Ég vona að allir vita hversu þýðingarmikið það var fyrir mig að fá að vera knattspyrnustjóri Leeds United," sagði Grayson en hann kom félaginu upp í ensku B-deildina árið 2010.

Grayson þakkaði öllum þeim sem hann starfaði með og óskaði félaginu og stuðningsmönnum alls hins besta. „Kannski fæ ég einn daginn tækifæri til að koma aftur til þessa frábæra knattspyrnufélags."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×