Enski boltinn

Van Persie með þrennu í fyrsta sigri Arsenal á árinu | Henry skoraði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Robin van Persie skoraði þrennu og Alex Oxlade-Chamberlain var með tvö mörk þegar Arsenal-liðið hrökk í gang og vann 7-1 stórsigur á Blackburn Rovers. Þetta var fyrsti sigur Arsenal á árinu 2004 en liðið var aðeins búið að ná í eitt stig úr síðustu fjórum leikjum sínum. Thierry Henry kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og skoraði sjöunda og síðasta markið.

Theo Walcott átti mjög góðan dag eins og þeir Van Persie og Oxlade-Chamberlain en Walcott lagði upp þrjú mörk í leiknum. Arsenal-liðið sundurspilaði Blackburn-liðið í þessum leik og sigurinn hefði vel getað orðið enn stærri. Robin van Persie lagði upp tvö mörk auk þess að skora þrjú mörk sjálfur.

Robin van Persie var búinn að koma Arsenal í 1-0 eftir aðeins 80 sekúndur eftir frábæran undirbúning frá Theo Walcott.

Morten Gamst Pedersen jafnaði hálftíma síðar með glæsilegu marki beint út aukaspyrnu en Arsenal-liðið svaraði með tveimur mörkum með tveggja mínútna millibili.

Robin van Persie skoraði það fyrra á 38. mínútu eftir aðra frábæra stoðsendingu frá Walcott og Van Persie lagði síðan upp þriðja markið fyrir Alex Oxlade-Chamberlain á 40. mínútu.

Gaël Givet fékk síðan rauða spjaldið fyrir tveggja fóta tæklingu á Robin van Persie á 43. mínútu. Möguleikar Blackburn voru þá endanlega úr sögunni.

Mikel Arteta skoraði fjórða markið á 51. mínútu í kjölfarið á hornspyrnu Van Persie en Laurent Koscielny lagði til hans boltans. Arteta mætti Blackburn þrisvar í deildinni í vetur (einu sinni með Everton) og skoraði í öllum leikjunum.

Alex Oxlade-Chamberlain var ekki hættur því hann skoraði fimmta markið á 54. mínútu eftir frábæran undirbúning Theo Walcott.

Robin van Persie innsiglaði þrennu sína á 61. mínútu eftir flotta sendingu Francis Coquelin og góða skiptingu hjá Oxlade-Chamberlain.

Arsenal átti eftir að bæta einu marki við því Thierry Henry kom inn á sem varamaður og skoraði sjöundan markið í uppbótartíma eftir sendingu frá Robin van Persie.



Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×