Enski boltinn

Hættir John Terry í enska landsliðinu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Síðasti landsleikurinn?. Terry fyrir leik á móti Svíum síðasta haust.
Síðasti landsleikurinn?. Terry fyrir leik á móti Svíum síðasta haust. Mynd/Nordic Photos/Getty
Guardian segir frá því í morgun að John Terry sé að hugsa um að gefa ekki lengur kost á sér í enska landsliðið vegna þess að hann hafi verið rekinn sem fyrirliði liðsins og hafi ennfremur þurft að glíma við uppreisn gegn sér meðal leikmanna landsliðsins sem eru dökkir á hörund.

Terry fékk að vita það í gærmorgun að hann yrði ekki lengur fyrirliði liðsins en það var stjórn enska sambandsins sem fékk það í gegn. Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, ætlaði að leyfa Terry að halda fyirrliðabandinu og var búinn að segja Chelsea-manninum það. Hann mátti sín lítils gagnvart stjórninni.

John Terry hefur eins og kunnugt er verið kærður fyrir kynþáttafordóma gagnvart Anton Ferdinand en málaferlunum var frestað fram yfir Evrópumótið í sumar. Málið mun samt sem áður elta Terry eins og skuggi fram á sumar.

Terry gerði sér líka grein fyrir því í æfingaleikjum enska landsliðsisns gegn Spáni og Svíþjóð í nóvember síðastliðnum að það væru ekki allir í enska landsliðinu ánægðir með hans framgöngu gagnvart Anton Ferdinand, sér í lagi þeir leikmenn sem eru dökkir á hörund.

Capello er mjög reiður yfir þróun mála en þó ekki eins sár og reiður og Terry sem hefur nú misst fyrirliðabandið fyrir annað stórmótið í röð. Það er allt eins líklegt að hann spili ekki aftur fyrir enska landsliðið.

Næsti leikur Englendinga er vináttuleikur á móti Hollandi 29. febrúar næstkomandi og Capello þarf hugsanlega að slökkva marga elda þegar hópurinn kemur saman fyrir þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×