Enski boltinn

Ferguson: Áttum að fá fjórar vítaspyrnur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ferguson fórnar höndum á hliðarlínunni á Stamford Bridge í gær.
Ferguson fórnar höndum á hliðarlínunni á Stamford Bridge í gær. Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, var ósáttur með frammistöðu annars aðstoðardómarans í 3-3 jafntefli liðsins gegn Chelsea í gær.

Liðsmenn United náðu að snúa því sem virtist töpuðum leik í jafntefli gegn Chelsea í gær. Þremur mörkum undir stefndi allt í stórsigur Chelsea. Tvö mörk úr vítaspyrnum og skallamark Javier Hernandez björguðu stigi fyrir gestina.

Þrátt fyrir tvær vítaspyrnur í þágu síns liðs taldi Ferguson að vísa hefði átt Gary Cahill, varnarmanni Chelsea, af velli í fyrri hálfleik. Þá virtist enski landsliðsmaðurinn brjóta á Danny Welbeck sem var að sleppa í gegn.

„Þessi sami aðstoðardómari dæmdi víti á okkur gegn Liverpool í fyrra þrátt fyrir að vera í um 40 metra fjarlægð," sagði Ferguson og var hneykslaður á ákvörðun aðstoðardómarans að lyfta ekki flaggi sínu. Ferguson taldi að vísa hefði átt Cahill af velli fyrir brotið en viðurkenndi þó að líklega hefði brotið átt sér stað utan teigs.

„Ég kenni ekki Howard Webb (dómara leiksins) um. Hann þurfti aðstoð í þetta skiptið en fékk hana ekki," segir Ferguson sem sagði vítaspyrnurnar tvær sem hans menn fengu hafa verið réttmætar.

„En vítaspyrnurnar hefðu átt að vera fjórar," sagði Ferguson sem leit á niðurstöðuna sem tvö stig töpuð í stað þess eina sem þeir fengu út úr leiknum.

„Auðvitað eru þetta tvö stig töpuð en það er á hreinu að liðsmenn Manchester City hafa ekki haft gaman af að fylgjast með hvernig við brugðumst við í þessum leik," sagði Skotinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×