Enski boltinn

Wenger: Ég þarf ekki að réttlæta hverja einustu ákvörðun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segist ekki þurfa að réttlæta ákvörðun sína um að skipta Alex Oxlade-Chamberlain af velli fyrir Rússann Andrei Arshavin í 2-1 tapi gegn Manchester United í gær. Skipting vakti hörð viðbrögð meðal fjölmargra stuðningsmanna Lundúnarliðsins og virtist fyrirliðinn Robin van Persie bæði undrandi og ósáttur við skiptinguna.

Oxlade-Chamberlain hafði verið líflegur í liði Arsenal og meðal annars lagt upp jöfnunarmark liðsins um miðjan síðari hálfleik. Leikurinn virtist vera að snúast á sveif með heimamönnum þegar Englendingnum unga var skipt útaf við mikil mótmæli stuðningsmanna Arsenal. Markaskorari og fyrirliði Arsenal, Robin van Persie, leit í átt að varamannabekk Arsenal og virtist muldra „nei" þegar hann áttaði sig á skiptingunni sem átti sér stað.

„Ég skil vel að stuðningsmennirnir séu ósáttir við skiptinguna, sérstaklega í ljósi þess að hún virkaði ekki," sagði Wenger við blaðamenn að leik loknum. „En það þýðir líka að ég tók rétta ákvörðun fyrir leikinn," sagði Wenger um val sitt á byrjunarliðinu.

Arshavin hefur fallið í áliti hjá stuðningsmönnum Arsenal undanfarin misseri og valdið vonbrigðum með frammistöðu sinni. Hann sýndi skelfilegan varnarleik í aðdraganda sigurmarks Manchester United.

„Hef framkvæmt 50 þúsund skiptingar"

„Oxlade-Chamberlain var farinn að þreytast, farinn að teygja á kálfunum enda ekki vanur þessari ákefð," sagði Wenger um Englendinginn sem var í fyrsta sinn í byrjunarliði í ensku úrvalsdeildinni.

„Arshavin er fyrirliði rússneska landsliðsins. Þarf ég að réttlæta þá ákvörðun að skipta 18 ára leikmanni af velli sem er að spila sinn annan eða þriðja leik? Reynum að sjá hlutina í réttu ljósi. Ég verð að standa með skiptingum mínum. Ég hef starfað sem knattspyrnustjóri í 30 ár og framkvæmt 50 þúsund skiptingar. Þarf ég að réttlæta hverja einustu? Nei, ég þarf ekki að útskýra fyrir ykkur hverja einustu skiptingu," sagði Frakkinn sem stýrði liði sínu í þriðja tapleiknum í deildinni í röð. Rúm fjögur ár eru síðan það gerðist síðast hjá Arsenal.

Neville las Arshavin pistilinn

Sparkspekingur Sky-sjónvarpsstöðvarinnar og fyrrum leikmaður Manchester United, Gary Neville, átti ekki í vandræðum með að lýsa sinni skoðun á málinu og tók Arshavin sérstaklega fyrir.

„Maður vill aldrei gagnrýna leikmenn en hann (Arshavin) virðist hafa minnstan áhuga á að spila knattspyrnu af öllum leikmönnunum í deildinni. Honum líkar ekki veðrið. Honum líkar ekki við kvenfólkið. Ég held að hann vilji fara aftur til Rússland. Drífðu þig heim. Stuðningsmenn Arsenal vilja ekki sjá hann meir," sagði Neville um Arshavin sem hefur verið í herbúðum Lundúnarliðsins í þrjú ár.

Þá bætti Neville við að viðbrögð van Persie væru ekki til þess fallin að gera starf Wenger auðveldara.

„Þegar fyrirliðinn bregst svona við þá áttu við vandamál að stríða," sagði Neville um viðbrögð Hollendingsins.

Wenger: Ekki einum leikmanni að kenna

„Við vinnum og töpum sem lið. Viltu að ég kenni einum leikmanni um ófarir okkar? Það geri ég ekki. Hafi ég gert mistök þá biðst ég afsökunar," sagði Wenger og bætti við:

„Við hefðum allt eins getað tapað með Oxlade-Chamberlain á vellinum. United eru alltaf hættulegir á vængjunum. En fólk greiðir fyrir miðana sína og hefur fullan rétt á að segja hug sinn. Við stjórnum ekki hegðun fólks. En það þýðir ekki að fólkið hafi alltaf rétt fyrir sér," sagði Wenger.

Arsenal situr eftir tapið í 5. sæti deildarinnar með 36 stig. Fjögur efstu sætin gefa sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en Chelsea situr í 4. sætinu með 41 stig.



Staðan í ensku úrvalsdeildinni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×