Enski boltinn

Gerrard: Bannað að tala um Wembley

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, segir að leikmenn liðsins verði að halda einbeitingunni í lagi fyrir leik liðsins gegn Manchester City á morgun.

Liverpool tekur þá á móti City á Anfield með 1-0 forystu eftir fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins.

Liðið var þó langt frá sínu besta um helgina og steinlá fyrir Bolton, 3-1, þar sem Grétar Rafn Steinsson skoraði eitt marka sinna manna. Eftir leik sagði Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, að leikmenn hefðu ekki verið með hugann við leikinn.

„Það verður algerlega bannað að tala um Wembley vegna þess að við erum ekki komnir þangað enn," sagði Gerrard en úrslitaleikur keppninnar fer fram á Wembley-leikvanginum í Lundúnum.

„Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að þetta verður erfiður leikur. Við þurfum að ná okkar allra besta fram - allir leikmenn þurfa að vera á tánum."

Gagnrýni Dalglish var nokkuð harkaleg en hann segir sjálfur að hún hafi verið nauðsynleg. „Þetta þurfti að segja. Það er stundum erfitt en þetta var það rétta í stöðunni."

„Ég held að enginn geti neitað þeirri staðreynd að við frammistaða okkar í leiknum var langt frá okkar besta. Ég hef hrósað strákunum þegar þeir hafa átt það skilið en við þurfum líka að vera heiðarlegir og horfast í augu við sannleikann þegar við spilum illa."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×