Fótbolti

Ronaldinho hefur ekki fengið borgað í fimm mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho.
Ronaldinho. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brasilíski fótboltamaðurinn Ronaldinho er að leita sér að nýju félagi því hann hefur ekki fengið launin sín borguð í fimm mánuði. Ronaldinho spilar með Flamengo í heimalandi sínu en hann ákvað að fara aftur heim til Brasilíu til þess að eiga meiri möguleika á því að komast í HM-hóp Brassa. Brasilíumenn halda einmitt HM 2014.

Flamengo skuldar nú Ronaldinho meira en 257 milljónir íslenskra króna og Roberto de Assis, bróðir hans og umboðsmaður, segir að Ronaldinho sé það ósáttur að hann ætli að yfirgefa félagið.

„Við verðum að finna lausn á þessu en það verður erfitt fyrir mig. Hann hefur ekki fengið neitt borgað í fimm mánuði," sagði Roberto de Assis við Extra-blaðið í Brasilíu. Hann talaði jafnframt um það að Ronaldinho væri með tilboð frá Spáni, Ítalíu og Suður-Ameríku.

Ronaldinho er enn bara 31 árs gamall en hann var með 14 mörk og 7 stoðsendingar í 31 deildarleik á sínu fyrsta tímabili með Flamengo. Hann lék áður með AC Milan og Barcelona en hóf feril sinn í Evrópu með franska liðinu Paris Saint-Germain.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×