Innlent

Íslensk rannsókn: Horfur sjúklinga batna stórlega

Horfur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein hafa stórlega batnað samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn sem birtist í virtu bandarísku læknatímariti í dag. Ástæðan er rakin til aukinnar notkunar á myndrannsóknum á öðrum sjúkdómum.

Læknar við Læknadeild Háskóla Íslands og skurðdeild Landspítalans birtu rannsóknina í vísindaritinu Journal of Urology en þar kemur fram að rúmlega helmingur nýrnafrumukrabbameina á Íslandi greinist nú fyrir tilviljun en fyrir rúmum fjörutíu árum var hlutfallið ellefu prósent.

„Ástæðan fyrir því tengjum við beint við aukna notkun á myndrannsóknum í tengslum við aðra sjúkdóma. Við höfum til dæmis verið að sjá að notkun á tölvusneiðmyndum og ómskoðun hefur verið að aukast síðastliðna tvo áratugi sérstaklega og samhliða því hefur tilviljunargreining á nýrnafrumukrabbameini verið að aukast," segir Helga Pálsdóttir, deildarlæknir og einn af höfundum rannsóknarinnar, og bætir við að sjúklingar sem greinast með sjúkdóminn fyrir tilviljun hafi betri lífslíkur en þeir sem greinast vegna einkenna.

„Og jafnvel þegar leiðrétt er fyrir öðrum þáttum eins og stærð æxlanna og svo framvegis. Og ef ég gef dæmi um það þá eru 40% fleiri sem eru á lífi 5 árum eftir greiningu hjá tilviljunargreindahópnum samanborið við hinn hópinn sem hafa einkenni."

Hátt í 30 Íslendingar greinast árlega með sjúkdóminn en hann er algengari hér á landi en annars staðar í heiminum. „Ástæðuna fyrir því vitum við ekki og það er kannski ein af ástæðunum fyrir því að við erum að skoða nýrnafrumukrabbamein sérstaklega," segir hún.

Rannsóknir á erfðum sjúkdómsins standa nú yfir hér á landi og segir Helga að þetta eigi því eflaust eftir að skýrast á næstu árum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×