Enski boltinn

Markalaust í Lundúnarslagnum á Brúnni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Cech þurfti að taka á honum stóra sínum í fyrri hálfleik.
Cech þurfti að taka á honum stóra sínum í fyrri hálfleik.
Chelsea og Tottenham gerðu markalaust jafntefli í Lundúnarslag á Stamford Bridge í dag. Leikmenn Tottenham naga sig vafalítið handarbökin en liðið fékk frábær færi til þess að tryggja sér sigur í leiknum.

Tottenham hafði ekki lagt Chelsea að velli á Brúnni síðan í febrúar 1990. Liðið fékk skömminni skárri færi í frekar tíðindalitlum fyrir hálfleik en Peter Cech var vel á verði í marki Chelsea.

Í síðari hálfleik fengu markstangirnar að kenna á því. Juan Mata átti frábæra aukaspyrnu í stöngina. Brad Friedel, markverði Spurs, var vafalítið létt enda stóð hann hreyfingarlaus og horfði á eftir knettinum.

Skömmu síðar fékk Tottenham þrjú færi á jafnmörgum mínútum. Fyrst skallaði William Gallas framhjá úr dauðafæri. Þá komst Emmanuel Adebayor einn gegn opnu marki en Gary Cahill komst fyrir vandræðalega máttlitla afgreiðslu hans. Eftir hornspyrnuna skallaði Gareth Bale í þverslána. Adebayor skallaði svo frákastið yfir.

Í uppbótartíma átti Gareth Bale fína aukaspyrnu sem stefndi neðst í markhornið en Peter Cech varði vel.

Fernando Torres hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á fyrir Michael Essien stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Eftir leikinn hefur Tottenham áfram fimm stiga forskot á nágranna sína í fjórða sæti deildarinnar. Liðið hefur 55 stig en Chelsea 50. Tottenham hefur nú leikið fimm leiki án þess að vinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×