Erlent

Eldflaugavarnir beinast ekki að Rússlandi heldur Íran

Vel fór á með Sergej Lavrov og Össuri Skarphéðinssyni í upphafi fundar í gær. „Á þessum fundi minna Rússar og Atlantshafsbandalagið helzt á par sem hefur verið í tilhugalífi, rifizt svolítið, en er aftur farið að velta fyrir sér að rugla saman reytum sínum,“ sagði Össur í ræðu sinni á fundinum.mynd/nato
Vel fór á með Sergej Lavrov og Össuri Skarphéðinssyni í upphafi fundar í gær. „Á þessum fundi minna Rússar og Atlantshafsbandalagið helzt á par sem hefur verið í tilhugalífi, rifizt svolítið, en er aftur farið að velta fyrir sér að rugla saman reytum sínum,“ sagði Össur í ræðu sinni á fundinum.mynd/nato
Eldflaugavarnir Atlantshafsbandalagsins beinast ekki á nokkurn hátt gegn Rússlandi, sagði Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Brussel í gær. Clinton sagði að ekkert ríki utan NATO hefði neitunarvald um áform NATO um að verja sig fyrir hugsanlegum eldflaugaárásum, en bandalagið gerði ekki ráð fyrir slíkum árásum frá Rússlandi. „Þetta hefur ekkert með Rússland að gera. Í hreinskilni sagt snýst þetta um Íran og önnur ríki eða samtök sem eru að þróa eldflaugatækni,“ sagði Clinton.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins voru harðar umræður milli Sergejs Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og utanríkisráðherra NATO-ríkjanna um eldflaugavarnirnar, hugsanlega NATO-aðild Georgíu og hernaðaraðgerðinar í Líbíu á fundi þeirra í Brussel í gær. Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, orðaði það svo eftir fundinn að orðaskiptin hefðu verið „lífleg“ og „áköf“.

Lavrov hélt þó dyrunum opnum fyrir áframhaldandi viðræður og Rasmussen sagðist leggja ríka áherzlu á að samkomulag næðist. „Ef við náum samkomulagi um [eldflaugavarnirnar] færir það samstarf okkar upp á nýtt stig,“ sagði framkvæmdastjórinn.

NATO hefur boðið Rússum náið samstarf um eldflaugavarnir, en Rússar hyggjast setja upp sitt eigið gagnflaugakerfi til að verjast hugsanlegum árásum frá löndum á borð við Íran og Norður-Kóreu. Rasmussen sagði að ein hugmynd væri að NATO og Rússland settu upp tvær miðstöðvar, með starfsfólki frá báðum aðilum, sem myndu skiptast á upplýsingum, undirbúa sameiginlegar æfingar og framkvæma sameiginlegt hættumat. „Við viljum að Rússar sjái með eigin augum að eldflaugavarnirnar beinist ekki gegn Rússlandi,“ sagði Rasmussen.

Lavrov var á því er hann ræddi við blaðamenn eftir fundinn að NATO hefði ekki sýnt nægilegan samstarfsvilja. Hann ítrekaði fyrri kröfur Rússa um skýrar, lagalega bindandi tryggingar í formi alþjóðasamnings fyrir því að eldflaugavarnir NATO beindust ekki á neinn hátt gegn kjarnorkufælingarmætti Rússlands. Sum NATO-ríkin, Bandaríkin þar á meðal, telja að slíkur samningur myndi binda hendur bandalagsins um of.

Rasmussen sagði að tryggingin sem Rússar kölluðu eftir hefði í raun verið fyrir hendi í hálfan annan áratug, allt frá því að undirrituð var samstarfsyfirlýsing NATO og Rússlands árið 1997, þar sem aðilar hétu því að beita ekki valdi hvor gegn öðrum. Nú væri tímabært að ítreka þær yfirlýsingar, um leið og nýtt samkomulag næðist um eldflaugavarnirnar, helzt á fyrri hluta næsta árs.

Lavrov sagði að Rússar væru áfram reiðubúnir til viðræðna, að því gefnu að „lögmætar áhyggjur allra aðila“ væru teknar með í reikninginn. „Við getum fundið lausn sem gagnast báðum. Við höfum enn dálítinn tíma en hann styttist með hverjum deginum.“

olafur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×