Enski boltinn

Tevez stakk af til Argentínu í leyfisleysi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlos Tevez á von á frekari sektum frá Manchester City eftir að hann stakk af til Argentínu í leyfisleysi. Tevez flaug til Argentínu í gær eftir að hafa ákveðið að sætta sig við sekt upp á tveggja vikna laun fyrir að neita að hita upp í Meistaradeildarleik í München.

„Hann fór til að hitta fjölskyldu sína. Þau fóru til baka með honum þegar hann eyddi verkbanninu í Argentínu en núna fór hann til að hitta þau," sagði Paul McCarthy við Sky Sports News en hann er blaðafulltrúi Carlos Tevez.

„Við höfum sagt það allan tímann að Carlos gerir sér grein fyrir því að hann þarf að komast aftur í leikform. Ég get samt ekki sagt meira fyrr en Carlos er kominn aftur til Englands," sagði McCarthy.

Það bjuggust allir við að Tevez myndi áfrýja sektinni en McCarthy sagði að Argentínumanninum hafi fundist vera kominn tími til að loka því máli.

Það á síðan eftir að koma í ljós hver viðbrögð Manchester City verða þegar argentínski framherjinn snýr aftur til baka frá Argentínu en margir leikmenn City-liðsins eru uppteknir í landsliðsverkefnum þessa dagana og því er fámennt á æfingum liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×