Erlent

Fjarvera Pakistans vekur athygli

Forseti Afganistans mætir til kvöldverðar í tengslum við ráðstefnuna í Bonn. nordicphotos/AFP
Forseti Afganistans mætir til kvöldverðar í tengslum við ráðstefnuna í Bonn. nordicphotos/AFP
Fjarvera fulltrúa frá Pakistan setti svip sinn á alþjóðlega ráðstefnu um framtíð Afganistans, sem haldin var í Þýskalandi í gær. „Það er óheppilegt að þeir tóku ekki þátt,“ sagði Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. „Ég reikna með að Pakistanar muni taka þátt í framhaldinu og við reiknum með að þeir gegni uppbyggilegu hlutverki.“

Í viðtali við fréttastofuna AP segir Yousouf Raza Gilani, forseti Pakistans, að reynt sé að leita leiða til að bæta samskiptin við Bandaríkin, sem hafa verið mjög stirð undanfarið.

„Við erum staðráðin í að ná sáttum þrátt fyrir að hafa ekki mætt til ráðstefnunnar,“ sagði Gilani.

Það var árás bandaríska hersins á landamærastöð í Pakistan fyrir nokkrum vikum, þar sem á þriðja tug pakistanskra hermanna lét lífið, sem varð til þess að samskipti ríkjanna versnuðu um allan helming.

Ráðstefnan í Þýskalandi er haldin í tilefni þess að um næstu áramót fer Bandaríkjaher alfarinn frá Afganistan, áratug eftir að stríðið þar hófst. Bandaríkin og Þýskaland höfðu vonast til þess að á ráðstefnunni mætti sýna fram á þann árangur sem náðst hefði í viðræðum við talibanahreyfinguna um frið. Þess í stað snerist hún upp í áminningu um að enn eru mörg erfiðustu deilumálin óleyst.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×