Erlent

Fyrirsæta gekk á flugvélaskrúfu

Lauren Scruggs
Lauren Scruggs mynd/ABC
Fyrirsætan Lauren Scruggs er í stöðugu ástandi eftir að hún gekk á flugvélaskrúfu sem var í gangi í Texas. Atvikið átti sér stað fyrir tveimur dögum. Ekki er vitað hvort að hún muni hljóta varanlegar heilaskemmdir.

Atvikið átti sér stað í Texas á sunnudaginn síðastliðinn. Scruggs hafði flogið yfir borgina McKinney ásamt vinum. Eftir lendingu steig Scruggs út úr vélinni til að hleypa næstu farþegum um borð. Ekki er vitað með vissu hvað olli því að Scruggs gekk á flugvélaskrúfuna.

Scruggs var flutt á Parkland spítalann í Dallas þar sem gert var að sárum hennar. Hún missti vinstri handlegg við öxl. Höfuð hennar fór einnig í skrúfuna.

Samkvæmt fréttamiðlinum ABC eru slys eins þessi afar sjaldgæf. Líklega megi rekja orsök slyssins til lélegra leiðbeininga flugmannsins. Talið er að öryggisráðstöfunum á flugvellinum hafi verið ábótavant.

Talsmaður fjölskyldu Scruggs segir það hafa verið kraftaverk að hún hafi lifað slysið af.

Scruggs hafði starfað sem fyrirsæta í nokkur ár. Hún var einnig með vinsæla blogg-síðu þar sem hún skrifaði um nýjustu tískustrauma. Nýlega hafði Scrubbs stofnað lífstílstímaritið LoLo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×