Erlent

Reiknað með töluverðum átökum

Forseti leiðtogaráðs ESB ásamt Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Brussel fyrr á árinu. nordicphotos/AFP
Forseti leiðtogaráðs ESB ásamt Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Brussel fyrr á árinu. nordicphotos/AFP
Frakkar og Þjóðverjar reyna í dag og á morgun að sannfæra aðra leiðtoga Evrópusambandsríkjanna um nauðsyn þess að breyta sáttmála sambandsins til að endurheimta traust til evrunnar.

Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, segir enga þörf á að breyta sáttmálanum. Vel sé hægt að ná samkomulagi um strangara aðhald í ríkisfjármálum án þess að fara út í það langvinna og óvissa ferli sem sáttmálabreytingar yrðu. Öll aðildarríkin, sem nú eru orðin 27, þyrftu að samþykkja slíkar breytingar, auk þess sem breyta þyrfti nýgerðum aðildarsamningi Króatíu.

Búast má við töluverðum átökum á fundinum, því afar skiptar skoðanir eru meðal aðildarríkjanna um það hvort hugmyndir Þjóðverja og Frakka um fjármálabandalag séu rétta leiðin til að takast á við kreppuna.

AP-fréttastofan hafði eftir háttsettum þýskum embættismanni, ónefndum, að Angela Merkel Þýskalandskanslari ætlaði ekki að bakka með neitt. Vel gæti því farið svo að leiðtogafundurinn skilaði engri niðurstöðu og leitin að lausn sem allir gætu sætt sig við héldi áfram næstu vikurnar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×