Erlent

Ari Emanuel: Maðurinn á bak við tjöldin

Ari Emanuel er einn valdamesti maðurinn í Hollywood enda á hann og rekur eina stærstu umboðsskrifstofu draumaborgarinnar.
Ari Emanuel er einn valdamesti maðurinn í Hollywood enda á hann og rekur eina stærstu umboðsskrifstofu draumaborgarinnar. Nordic Photos/Getty
Fátt gerist í Hollywood án umboðsmanna, þeir eru upphaf og endir alls. Hafi einhver umboðsmaður meiri völd en annar heitir sá umboðsmaður Ari Emanuel.

Financial Times birti fyrir skemmstu nokkuð merkilegt viðtal við Ari Emanuel og samstarfsfélaga hans, Patrick Whitesell, um fyrirtæki þeirra William Morris Endeavor Entertainment, en Emanuel og Whitesell eru taldir vera í hópi valdamestu manna í Hollywood um þessar mundir. Hlutverk umboðsmanna er fyrst og fremst að sjá um réttindi umbjóðenda sinna og á því sviði þykir Emanuel vera sá besti. Hann hefur í auknum mæli tryggt stjörnunum sínum meiri réttindi og aukna hlutdeild í höfundarverkum sínum.

„Á tímum niðurhals og dræmrar sölu DVD-diska hefur innihaldið aldrei skipt jafn miklu máli. Af þeim sökum eru handritshöfundar, stjörnurnar og leikstjórar í bílstjórasætinu,“ hefur Financial Times eftir Emanuel og Whitesell.

Í grein FT er uppgangur Emanuels rifjaður upp en sú saga verður að teljast merkileg. Hann lá á miðri götu í Beverly Hills fyrir sautján árum, að drepast úr verkjum eftir að hafa lent í bílslysi, og tók ákvörðun sem átti eftir að breyta valdaþrepunum í Hollywood. Emanuel yfirgaf eina stærstu umboðsskrifstofu Hollywood þá, ICM, og stofnaði Endeavor. Reyndar fer tvennum sögum af því hvernig brotthvarf Emanuels og fjögurra annarra umboðsmanna vildi til, sumstaðar er því haldið fram að þeir hafi verið reknir fyrir þjófnað.

Endeavor-skrifstofan stækkaði hratt og örugglega, starfsemi hennar fór í fyrstu fram fyrir ofan hamborgarabúllu í miðborg Los Angeles en fyrirtækið hefur nú höfuðstöðvar skammt frá einu fínasta hóteli draumaborgarinnar, The Beverly Wilshire.

Emanuel og Whitesell tóku síðan yfir eina elstu og virtustu umboðsskrifstofu Hollywood árið 2009, William Morris og til varð stærsta umboðsskrifstofa Bandaríkjanna: William Morris Endeavor.

Á viðskiptaráðstefnu fyrir ári útskýrði Emanuel yfirtökuna. „Með henni brutum við okkur leið inn á tónlistar- og bókamarkaðinn. Við viljum haga umboðsmennsku þeirra listamanna á svipaðan hátt og við höfum gert fyrir kvikmyndastjörnur,“ en fyrirtækið sér meðal annars um öll mál Lady Gaga.

Á fundinum kom jafnframt fram að fyrirtækið væri að gera tilraunir með Facebook-síður stjarnanna og hvernig hægt sé að nýta þær til að kynna væntanlegar kvikmyndir þeirra.

Emanuel er ákaflega skrautlegur karakter og er þekktur fyrir óheflaða framkomu og ruddalegt orðfæri. Umboðsmaðurinn Ari Gold í Entourage er alfarið byggður á honum enda er framleiðandi þáttanna, Mark Wahlberg, einn traustasti skjólstæðingur Emanuels.

„Þetta var maður sem ég vildi hafa mínu liði. Ari er ein af ástæðum þess að ég er í sjónvarpsbransanum og á sjálfur það efni sem ég framleiði,“ hefur Financial Times eftir Wahlberg. Leikarinn er síður en svo eina svokallaða A-stjarnan í persónulegum kúnnahópi Emanuels, meðal þeirra eru Martin Scorsese, Michael Bay, Charlize Theron og Steven Spielberg auk Denzels Washington og Michaels Douglas.

Emanuel er enginn venjulegur maður, hann vildi að Hollywood sparkaði Mel Gibson úr samfélagi sínu eftir að leikarinn gerðist sekur um gyðingahatur á sínum tíma og völd hans verða að teljast umtalsverð. Bróðir hans, Rahm Emanuel, var fyrsti starfsmannastjóri Baracks Obama í Hvíta húsinu en er núna borgarstjóri í Chicago.

freyrgigja@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×