Erlent

Háttsettur mafíuforingi handtekinn í neðanjarðarbyrgi

Lögreglan á Ítalíu hefur handtekið alræmdann mafíuforingja í þorpi nálægt Napólí en hann var hæstsetti foringi Camorra mafíunnar sem enn gekk laus.

Sá sem hér um ræðir heitir Michele Zagaria og hann er höfuð hinnar illræmdu Casalesi fjölskyldu sem talin er stjórna Camorra mafíunni. Zagaria hafði verið á flótta undan ítölsku lögreglunni árum saman en hann er með margfalda lífstíðardóma á bakinu.

Lögreglan náði Zagaris í sterkbyggðu neðanjarðarbyrgi í heimabæ hans Casapesenna í grend við Napólí. Að sögn blaðsins Corriere della Sera voru veggir byrgisins allt að fimm metra þykkir og úr járnbentri steinsteypu.

Auk þess að stjórna Camorra mafíunni var Casalesi fjölskyldan áberandi í fíkniefnaviðskiptum á Ítalíu og viðriðin mörg spillingarmál í byggingariðnaðinum í Napólí og víðar.

Anna Maria Cancellieri innanríkisráðherra Ítalíu segir að handtaka Zagaria sé stórsigur fyrir stjórnvöld landsins og jafnframt mikið áfall fyrir ekki bara Casalesi fjölskylduna heldur einnig Camorra mafíuna í heild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×