Erlent

Risamótmæli boðuð í Rússlandi

Fjöldi mótmælenda klæddist grímum af andliti Vladimírs Pútín í mótmælum á fimmtudagskvöld. Fréttablaðið/AP
Fjöldi mótmælenda klæddist grímum af andliti Vladimírs Pútín í mótmælum á fimmtudagskvöld. Fréttablaðið/AP
Stjórnarandstaðan í Rússlandi hefur boðað til mótmæla vítt og breitt um Rússland í dag til að mótmæla fregnum um víðtækt kosningasvindl í þingkosningum í landinu á sunnudag. Búist er við fjölmennustu mótmælum í landinu frá falli Sovétríkjanna. Mótmæli hafa víða brotist út í Rússlandi síðustu daga eftir því sem æ fleiri gögn um kosningasvindl hafa komið fram. Þúsundir söfnuðust þannig saman á torgum í Moskvu og Sankti Pétursborg þrjú kvöld í röð í upphafi vikunnar.

Sameinað Rússland, flokkur Vladimírs Pútín, forsætisráðherra, og Dmitrí Medvedev, forseta, tapaði rúmlega 20 prósentum sæta sinna í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins, í kosningunum. Þrátt fyrir það hefur flokkurinn tæpan meirihluta þingsæta.

Samfélagsmiðlar hafa logað í kjölfar kosninganna og borið boðskap mótmælandanna á milli manna. Hópur aðgerðasinna hefur hvatt almenning til að mæta með hvíta klúta á mótmælin í dag til að veita mótmælahreyfingunni merki. Þá er búist við því að viðbúnaður lögreglu verði mikill. - mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×