Erlent

Afganar munu þurfa aðstoð í mörg ár

Utanríkisráðherrar allra ríkjanna sem taka þátt í alþjóðaliðinu í Afganistan hittust á fundi í Brussel í gær.
mynd/NATO
Utanríkisráðherrar allra ríkjanna sem taka þátt í alþjóðaliðinu í Afganistan hittust á fundi í Brussel í gær. mynd/NATO
Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins (NATO) fordæmdu í gær hryðjuverkin í Afganistan fyrr í vikunni en lýstu því engu að síður yfir að ástandið í landinu færi batnandi. NATO hyggst styðja Afganistan með háum fjárframlögum og margvíslegri aðstoð eftir árið 2014, en þá er áætlað að herlið bandalagsins hafi yfirgefið landið.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, sagði uppreisnarmenn í Afganistan nú veikari en áður. Árásum á alþjóðaliðið (ISAF) hefði fækkað um fjórðung síðan í fyrra og og í lok ársins yrði landsvæði þar sem um helmingur landsmanna byggi undir stjórn afganskra öryggissveita sem nytu aðeins stuðnings frá ISAF.

Rasmussen sagði að NATO yrði að búa sig undir stuðning við Afganistan um langan tíma. Á næstu þremur árum myndi hlutverk bandalagsins í landinu færast frá beinni þátttöku í aðgerðum gegn uppreisnarmönnum yfir í þjálfun og stuðning. Afganistan myndi áfram þurfa mikinn fjárstuðning eftir 2014 og leiðtogar NATO myndu á fundi sínum í maí samþykkja heildstæðan pakka með stuðningsaðgerðum. Allt alþjóðasamfélagið yrði hins vegar að leggja sitt af mörkum.

„NATO og samstarfsríki þess í ISAF munu ekki hlaupa frá ókláruðu verki. Við munum ekki missa Afganistan aftur í hendur vígamanna,“ sagði Rasmussen. Framkvæmdastjórinn sagðist aðspurður ekki vilja nefna tölu um hvað það myndi kosta að halda úti 352.000 manna her- og lögregluliði Afgana sjálfra. Talið er að rekstur öryggissveitanna kosti meira en sem nemur öllum tekjum afganska ríkisins, þannig að alþjóðleg aðstoð er óhjákvæmileg. Fæstir ríkissjóðir eru hins vegar aflögufærir.- óþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×