Erlent

Átök við lögreglu í Moskvu

Lögreglan átti fullt í fangi með að halda mótmælendum í skefjum. nordicphotos/AFP
Lögreglan átti fullt í fangi með að halda mótmælendum í skefjum. nordicphotos/AFP
Átök brutust út í Moskvu í gær þegar lögreglan reyndi að stöðva mótmælendur sem söfnuðust saman annan daginn í röð til að lýsa andstöðu sinni við framkvæmd þingkosninga á sunnudag.

Mótmælendur fullyrða að kosningasvindl hafi orðið til þess að stjórnarflokkur Vladimírs Pútín forsætisráðherra hélt naumum meirihluta á þingi. Alþjóðlegir kosningaeftirlitsmenn hafa staðfest að mörgu í framkvæmd kosninganna hafi verið ábótavant, meðal annars hafi komið fram vísbendingar um að falsaðir atkvæðaseðlar hafi verið notaðir.

Lélegur árangur stjórnarflokksins í kosningunum bendir til þess að sigur Pútíns í forsetakosningum sem haldnar verða í mars verði ekki jafn auðunninn og hann virðist hafa reiknað með.

Kosningaúrslitin virðast enn fremur hafa blásið lífi í stjórnarandstöðuna, sem undanfarið hefur verið vonlítil um að vinna megi sigur á Pútín eftir lýðræðislegum leiðum. Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var í október telja 82 prósent Rússa að þeir geti engin áhrif haft á stjórnmálin.

Á mánudagskvöld, þegar ljóst var að Sameinað Rússland, flokkur þeirra Pútíns og Dimitrís Medvedev forseta, hafði rétt náð tæplega 50 prósentum atkvæða, héldu þúsundir manna út á götur Moskvuborgar til að mótmæla Pútín.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×