Erlent

Merkel reynir að bera sig vel

Frakklandsforseti og Þýskalandskanslari ráðleggja matsfyrirtækjum að bíða leiðtogafundar ESB síðar í vikunni. Fréttablaðið/AP
Frakklandsforseti og Þýskalandskanslari ráðleggja matsfyrirtækjum að bíða leiðtogafundar ESB síðar í vikunni. Fréttablaðið/AP
Bæði Angela Merkel Þýskalandskanslari og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti reyndu í gær að gera lítið úr því að matsfyrirtækið Standard & Poor‘s boðaði hugsanlega lækkun lánshæfismats evruríkjanna, jafnvel Þýskalands.

Einn aðstoðarmanna Merkel fagnaði jafnvel yfirlýsingu matsfyrirtækisins og sagði hana geta komið að góðu gagni við að sannfæra evruríkin um nauðsyn þess að fallast á strangara fjárlagasamstarf. Lækkun lánshæfismatsins myndi hins vegar gera allar björgunaraðgerðir á evrusvæðinu dýrari.

Angela Merkel sagðist í gær vonast til þess að á leiðtogafundi Evrópusambandsins síðar í vikunni myndi takast að efla á ný traust til evruríkjanna, þannig að óþarfi yrði að lækka lánshæfismatið.

Trú markaða á evruríkin styrktist að minnsta kosti eftir að Merkel og Sarkozy kynntu á mánudag hugmyndir sínar um breytingar á stofnsáttmálum ESB. „Ég hef alltaf sagt að þetta sé langt og erfitt ferli,“ sagði Merkel í gær, „og þetta heldur áfram, en við mörkuðum stefnuna í gær með forseta Frakklands og við ætlum að halda þeirri stefnu.“- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×