Erlent

Lofað refsileysi í stað afsagnar

Ali Abdullah Saleh virðist bara hæstánægður með að losna við að vera forseti. nordicphotos/AFP
Ali Abdullah Saleh virðist bara hæstánægður með að losna við að vera forseti. nordicphotos/AFP
Ali Abdullah Saleh, forseti Jemen, afsalaði sér í gær völdum og féllst á að varaforseti sinn, Abed Rabbo Mansor Hadi, tæki við af sér.

Gegn þessu er Saleh lofað að hann og fjölskylda hans verði ekki sótt til saka. Mótmælendur í Jemen fögnuðu afsögn forsetans, en gagnrýndu að samningurinn eigi að tryggja honum refsileysi.

Saleh hélt til Sádi-Arabíu í gær þar sem hann undirritaði samning um afsögnina við fulltrúa stjórnarandstöðunnar í Jemen, að viðstöddum Abdullah konungi Sádi-Arabíu.

Samningurinn kveður á um að kosningar verði haldnar í Jemen innan þriggja mánaða. Einnig er gert ráð fyrir tveggja ára aðlögunartíma fyrir ný stjórnvöld.

Saleh lofar jafnframt fullri samvinnu við stjórnarandstöðuna, sem fær nú hlutdeild í stjórn landsins. Auk þess er kveðið á um að hann verði heiðursforseti landsins næstu þrjá mánuðina.

Saleh segist ætla til Bandaríkjanna að leita sér þar lækninga. Hann virtist sáttur við þessi málalok og brosti breitt þegar hann undirritaði skjölin.

Fjölmenn mótmælendahreyfing hefur krafist afsagnar Salehs síðan snemma árs, en hann hefur jafnan neitað að láta af völdum þar til nú. Lögregla og her hafa tekið hart á mótmælendum og hafa átökin kostað fjölda manns lífið. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×