Erlent

Herforingjar skipta um stjórn í Egyptalandi

Mótmæli á Tahrir-torgi Mótmælendum þykir herforingjastjórnin hafa brugðist.
nordicphotos/AFP
Mótmæli á Tahrir-torgi Mótmælendum þykir herforingjastjórnin hafa brugðist. nordicphotos/AFP
Tugir þúsunda manna flykktust á Tahrir-torg í Kaíró í gær til að krefjast afsagnar herforingjastjórnarinnar. Herinn tók harkalega á mótmælendum og hafa nú tugir manna látist og hundruð manna særst.

Herforingjarnir sem fara með völd í Egyptalandi hafa fallist á afsögn bráðabirgðastjórnarinnar sem stjórnað hefur í umboði þeirra. Jafnframt boða herforingjarnir stofnun nýrrar „þjóðbjörgunarstjórnar“ og lofa því að um mitt næsta ár láti þeir af völdum og lýðræðislega kjörin stjórnvöld taki við.

Þegar herforingjastjórnin tók við af Mubarak í febrúar naut hún stuðnings mótmælenda og lofaði þingkosningum eftir hálft ár. Þeim var frestað en eiga nú að hefjast í næstu viku og standa í áföngum fram yfir áramót.

Forsetakosningar átti að koma í kjölfarið, en þeim hafði ítrekað verið frestað og varla þóttu horfur á að þær yrðu fyrr en árið 2013, þangað til herforingjarnir sögðu í gær að stjórnarskipti yrðu 1. júlí á næsta ári.

Undanfarnar vikur hefur æ fleiri Egyptum þótt herforingjastjórnin hafa brugðist og vera farin að draga umbætur úr hófi. Harkan sem beitt hefur verið á mótmælendur síðustu daga varð síðan til þess að mótmælin mögnuðust enn frekar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×