Fótbolti

Spánverjar töpuðu síðast stigi í undankeppni í Laugardalnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Villa í viðtali við spænska sjónvarpsmenn eftir jafnteflið á Laugardalsvellinum.
David Villa í viðtali við spænska sjónvarpsmenn eftir jafnteflið á Laugardalsvellinum. Mynd/Daníel
Spænska fótboltalandsliðið hélt sigurgöngu sinni áfram þegar það vann 3-1 sigur á Skotum í fyrrakvöld á lokakvöldi undankeppni EM 2012. Þetta var fjórtándi sigur Spánverja í röð í keppnisleikjum og jöfnuðu þeir þar með met Hollendinga og Frakka.

Spænska landsliðið er enn fremur búið að vinna 22 leiki í röð í undankeppni HM eða EM, alla leiki sína síðan liðið heimsótti okkur Íslendinga á Laugardalsvöllinn 8. september 2007.

Spánverjar töpuðu síðast alvöru landsleik þegar þeir lágu 0-1 fyrir Sviss í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni HM í Suður-Afríku 2010 en þá var spænska landsliði búið að vinna tólf alvöru leiki í röð.

Nú hafa Spánverjar gert betur. Þeir unnu síðustu sex leiki sína á HM og tryggðu sér heimsmeistaratitilinn. Spænska liðið vann síðan alla átta leiki sína í undankeppni EM með samanlögðu markatölunni 26-6, en í riðli með því voru Tékkland, Skotland, Litháen og Liechtenstein.

Frábær árangur Spánverja:

Undankeppni EM 2008: 4 sigrar í síðustu 4

Úrslitakeppni EM 2008: 5 sigrar, 1 jafntefli

Undankeppni HM 2010: 10 sigrar

Úrslitakeppni HM 2010: 6 sigrar, 1 tap

Undankeppni EM 2012: 8 sigrar

Samanlagt: 33 sigrar og 1 tap í síðustu 35 leikjum í undan- og úrslitakeppnum stórmóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×