Erlent

Situr enn sem fastast í skugga blóðbaðs

Forseti Jemens, situr enn á stóli sínum þrátt fyrir háværar raddir um að hann segi af sér. Fréttablaðið/AP
Forseti Jemens, situr enn á stóli sínum þrátt fyrir háværar raddir um að hann segi af sér. Fréttablaðið/AP
Ali Abdullah Saleh, forseti Jemens, sem sneri óvænt heim frá Sádi-Arabíu á sunnudag, lætur ekkert uppi um hvenær hann segi af sér. Blóðug átök hafa staðið í landinu í síðustu viku þar sem um 150 manns hafa látist í átökum stjórnarhersins við mótmælendur. Þeir hafa kallað ákaft eftir því að Saleh stígi til hliðar eftir 33ja ára valdatíð sem þykir framar öðru hafa einkennst af spillingu og getuleysi í baráttu við fátækt og glæpi.

Í ávarpi í gær boðaði Saleh að hann væri tilbúinn til að setjast að samningaborðinu á ný til að koma á friði í landinu. Laugardagurinn var hins vegar sá blóðugasti frá því að mótmælaaðgerðir hófust í febrúar. Stjórnarhermenn hafa meðal annars beitt sprengjuvörpum og leyniskyttum til að berja niður mótmælin.

Saleh hafði dvalist í Sádi-Arabíu frá því í júní, en þangað fór hann til að leita sér lækninga eftir að hafa særst alvarlega í sprengjuárás. Fjölmargir aðilar, meðal annars Samvinnuráð Persaflóa þar sem Sádi-Arabar eru í fararbroddi, hafa hvatt Saleh til að segja af sér. Þó hann segist reiðubúinn til að boða til kosninga telja andstæðingar forsetans að hann sé með þessu að tefja málin vísvitandi á meðan hann herðir tökin á landinu á ný. Vesturveldin hafa áhyggjur af því Jemen þar sem landið virðist vera orðin bækistöð fyrir hryðjuverkahópa sem tengjast meðal annars al-Qaeda.

Hópar tengdir al-Qaeda hafa þegar nýtt sér upplausnarástandið og lagt undir sig bæi og borgir í suðurhluta landsins. Saleh segir sjálfur að andstæðingar sínir séu í samkrulli við al-Qaeda um að velta stjórn sinni. Hann hefur margoft sagt að njóti hans ekki við muni hryðjuverkamenn taka öll völd í landinu.

Sáttmáli um stjórnarskipti, sem var saminn að frumkvæði Persaflóaríkjanna, hefur lengi legið fyrir. Samkvæmt honum þarf Saleh að láta af völdum umsvifalaust og og boða til kosninga. Hann hefur margoft vísað til þessa samkomulags en alltaf bakkað áður en til undirritunar kemur.

Í ávarpi sínu í gær sagðist Saleh vera boðberi friðar og sátta, en miðað við atburði síðustu daga virist enn langt í að ástandið róist í Jemen.

thorgils@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.