Innlent

Ungmennin þéna vel í fiskvinnslunni

Hér eru þau Hjörleifur Guðjónsson, systir hans Aðalheiður Guðjónsdóttir og Ólöf Sigurðardóttir að slægja ufsa. Aðalheiður, sem er MR-ingur, segir sumarhýruna duga allan veturinn.mynd/stefán
Hér eru þau Hjörleifur Guðjónsson, systir hans Aðalheiður Guðjónsdóttir og Ólöf Sigurðardóttir að slægja ufsa. Aðalheiður, sem er MR-ingur, segir sumarhýruna duga allan veturinn.mynd/stefán
Bergur Einarsson
Ákvörðun Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í maí síðastliðnum um að auka karfakvótann um tíu þúsund tonn hefur heldur betur haft áhrif á líf 83 ungmenna sem nú þéna allt að fjögur hundruð þúsund á mánuði í landvinnslunni hjá HB Granda í Reykjavík. Margir þeirra koma á leigubíl, sem HB Grandi greiðir.

Ungmennin eru á aldrinum 15 til 18 ára. Unnið er á tvenns konar vöktum; frá átta til fjögur og frá sex til sex. Þeir sem vinna þessar tólf tíma vaktir þéna tæplega 400 þúsund krónur á mánuði, að sögn Bergs Einarssonar, verkstjóra í landvinnslunni. Hann segir að ákvörðun ráðherrans varðandi karfakvótann hafi gert HB Granda það kleift að ráða ungmennin til þessara sumarstarfa. Þau taka þó ekki aðeins á rauðu roði því þau verka einnig ufsa.

„Ég veit að einhverjir eru að skipuleggja ferð til Rómar og aðrir til London, enda ekkert sem stendur í vegi fyrir því eftir svona sumarhýru,“ segir hann. Hann segir ennfremur að 99 prósent ungmennanna séu harðduglegt starfsfólk. Kannski eins gott því í síðustu viku voru tæplega 570 tonn af karfa og ufsa unnin í fiskiðjuverinu í Norðurgarði í Reykjavík sem er met.

Aðalheiður Guðjónsdóttir, sem er átján ára fiskvinnslukona, segir það ekkert mál að standa tólf tíma vaktir. „Ég hafði heyrt af þessu hjá félögum í skólanum svo ég ákvað að prófa í fyrra og ég kunni bara afskaplega vel við þetta svo ég ákvað að koma aftur í sumar,“ segir hún. Aðalheiður stundar nám í Menntaskólanum í Reykjavík og segir að þar séu nemendur alls ekkert of snobbaðir fyrir fiskvinnslu. „MR-ingum finnst þetta bara flott og ekki versnar það þegar ég segi frá laununum,“ segir hún.

Á Akranesi vinna um 30 ungmenni í markíl og ber Þröstur Reynisson, vinnslustjóri landvinnslu þar, þeim vel söguna. Eins er HG Grandi með flokk ungmenna í vinnu í starfstöð sinni á Vopnafirði.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×