Lífið

Á sjóræningjaslóð

Tvær í sigtinu Paul Greengrass er sagður ætla að leikstýra kvikmynd um Richard Phillips (t.h.), sem sérsveit bandaríska flotans bjargaði úr klóm sómalskra sjóræningja.
Tvær í sigtinu Paul Greengrass er sagður ætla að leikstýra kvikmynd um Richard Phillips (t.h.), sem sérsveit bandaríska flotans bjargaði úr klóm sómalskra sjóræningja.
Enski leikstjórinn Paul Greengrass er sagður líklegastur til að leikstýra kvikmynd um skipstjórann Richard Phillips sem Navy Seals, sérsveit bandaríska flotans, bjargaði úr klóm sómalskra sjóræningja árið 2009. Tom Hanks hefur þegar samþykkt að leika skipstjórann, sem skrifaði bók um dvöl sína meðal sjóræningjanna. Myndin verður byggð á þeirri bók og hefur þegar verið gefið vinnuheitið Maersk Alabama eftir skipi Phillips.

Erfiðlega hefur gengið hjá Greengrass að koma kvikmyndum sínum á koppinn undanfarin ár, en hann gerði síðast The Green Zone með Matt Damon. Hann gaf frá sér stórmyndina Fantastic Voyage en kvikmynd hans um Martin Luther King hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna réttindamála. Maersk Alabama gæti hins vegar farið í framleiðslu á þessu ári. Hún er þó ekki eina myndin sem leikstjórinn er orðaður við. Hann er einnig sagður vera áhugasamur um að leikstýra kvikmynd um ævi Formúlu 1 kappaksturshetjunnar Niki Lauda, sem var nær dauða en lífi eftir alvarlegan árekstur í Þýskalandi 1976 og missti meðal annars hægra eyrað í slysinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.