„Við Andri þurfum nú að fara í sumarfrí eins og aðrir, og gerum það bara hvort í sínu laginu og fáum til okkar þekkta gestastjórnendur í staðinn,“ segir Guðrún Dís Emilsdóttir, betur þekkt sem Gunna Dís, annar stjórnenda þáttanna Virkra morgna á Rás 2.
Þáttastjórnendurnir tveir, Gunna Dís og Andri Freyr Viðarsson, verða því með nýtt fyrirkomulag í Virkum morgnum í sumar þar sem sjö þjóðþekktir Íslendingar verða gestastjórnendur viku og viku í senn. Fréttablaðið sagði frá því fyrir stuttu að Andri Freyr væri að fara af stað með sjónvarpsþættina Andri á flandri, en þar ferðast hann um landið á gömlum húsbíl. Andri fær því að fara fyrr í sumarfríið. „Bubbi Morthens verður með mér í næstu viku og viku síðar fæ ég svo Helga Seljan til mín. Svo verða þeir Steinn Ármann Magnússon og Bjartmar Guðlaugsson vikurnar þar á eftir,“ segir Gunna Dís, en þær Edda Björgvinsdóttir, Hera Björk Þórhallsdóttir og Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir munu stýra þættinum með Andra síðar í sumar.
Það verða því Gunna Dís og Bubbi sem taka á móti hlustendum á næsta þriðjudag. „Þetta verður virkilega skemmtilegt. Hver hefur ekki gaman af því að hlusta á Bubba Morthens á Flóamarkaðnum?“ segir Gunna Dís að lokum.- ka
Frægir spreyta sig í útvarpi
