Lífið

Inspired by Iceland misnotað í Búlgaríu

President Bongo.
President Bongo.
„Ég var bara bókaður í gegnum umboðsskrifstofuna mína," segir Stephan Stephensen, betur þekktur sem President Bongo úr GusGus. Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær stendur til að halda upp á þjóðhátíðardag Íslendinga á offiseraklúbbi í Sofíu hinn 17. júní eins og lög gera ráð fyrir.

Hins vegar er einn hængur á. Samkvæmt búlgörskum fréttamiðlum og auglýsingum fyrir tónleikana átti landkynningarverkefnið Inspired by Iceland að styðja við bakið á þessum dansleik og hafði hann verið auglýstur með vörumerki þess.

Hjá Íslandsstofu, sem er með Inspired by Iceland á sinni könnu, kannast hins vegar enginn við að hafa gefið grænt ljós á umrædda stuðtónleika í Búlgaríu. „Við erum að setja okkur í samband við tónleikahaldarann og fá skýringar. Það hefur aldrei gerst áður að vörumerkið hafi verið notað á prentað efni án okkar vitundar og munum við því skoða þetta mál betur í framhaldinu," segir Inga Hlín Pálsdóttir,forstöðumaður markaðssóknar.

Simeon Vasilev, ritstjóri búlgarska plötusnúðatímaritsins DJ Mag Bulgaria, stendur fyrir tónleikunum í Sofíu. Fréttablaðið reyndi að ná tali af honum í gær en hafði ekki erindi sem erfiði.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.