Lífið

Sverrir keppir hjá Sameinuðu þjóðunum

Auglýsingin sem Sverrir Björnsson sendi inn í keppnina en hann sat sjálfur fyrir á myndinni.
Auglýsingin sem Sverrir Björnsson sendi inn í keppnina en hann sat sjálfur fyrir á myndinni.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á auglýsingum sem bæta samfélagið og hef gert nokkrar slíkar áður fyrir Stígamót og Auga," segir Sverrir Björnsson, hönnunarstjóri Hvíta Hússins, en hann er með framlag í auglýsingasamkeppni á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Þemað er ofbeldi gegn konum eða No to violence against women og mega allir Evrópubúar senda inn framlag. Að lokum sker dómnefnd úr um hvaða auglýsing ber sigur úr býtum en sú auglýsing verður birt út um allan heim.

„Það eru fleiri Íslendingar í keppninni þetta árið en það er frábært að sjá hversu margir taka þátt. Hugmyndaflugið er óendanlegt og það kemur glöggt fram þegar margir hönnuðir fá að glíma við sama verkefnið," segir Sverrir en Íslendingar hafa átt góðu gengi að fagna í auglýsingasamkeppnum á vegum Sameinuðu þjóðanna og í fyrra sigraði Stefán Einarsson með auglýsingu þar sem hann hvatti leiðtoga heimsins að draga úr fátækt. Hann situr nú í dómnefndinni og þarf að velja sigurvegara úr mörg hundruð þátttakendum.

„Sigur í svona keppni getur opnað ýmsar dyr og fær fyrsta sætið peningaverðlaun upp á 5.000 evrur. Stefán fékk að hitta Antonio Banderas í fyrra á verðlaunaafhendingunni og það væri nú ekki amalegt," segir Sverrir. Áhugasamir geta skoðað allar auglýsingarnar sem búið er að senda inn í keppnina og valið þær bestu.

Hægt er að skoða keppnina nánar á síðunni create4theun.eu. -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.