Lífið

Ofurhugar mæta á Galtalæk

Atli Þór Ingvarsson skipuleggur fyrstu jaðarhátíð landsins sem mun fara fram á Galtalæk í lok mánaðarins. Fréttablaðið/Anton
Atli Þór Ingvarsson skipuleggur fyrstu jaðarhátíð landsins sem mun fara fram á Galtalæk í lok mánaðarins. Fréttablaðið/Anton
Tjaldsvæðið á Galtalæk er líklega þekktast fyrir fjölskylduhátíðina sem þar fer fram um verslunarmannahelgar. Innan tíðar verður breyting þar á því fyrsta jaðar-útihátíð landsins fer fram á Galtalæk dagana 24. til 26. júní.

Atli Þór Ingvarsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, segist lengi hafa langað að skipuleggja útihátíð þar sem tónlist og jaðaríþróttir koma saman. Á hátíðinni fer meðal annars fram motocross-sýning þar sem ofurhugarnir Micke Gullstrand og Martin Snellström munu sýna listir sínar, en þetta er í fyrsta sinn sem slíkt sjónarspil fer fram hér á landi.

„Þetta eru tveir vel þekktir ofurhugar sem hafa sýnt listir sínar víða um heim. Þeir munu sýna ýmsa loftfimleika og ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem erlendir þátttakendur sýna hér á landi,“ útskýrir Atli Þór. Íslenskir ofurhugar munu einnig koma fram, auk íslenskra BMX- og hjólabrettakappa.

Ætlunin er að hátíðardagskráin höfði til sem flestra og því er boðið upp á fjölbreytt tónlistarval, en á meðal þeirra tónlistarmanna sem koma fram á hátíðinni eru Dikta, Valdimar, Steindi Jr., Blaz Roca og Friðrik Dór. Einnig verður á svæðinu sérstakt teknótjald í boði Techno.is þar sem færustu plötusnúðar landsins munu þeyta skífum.

Miðasala er hafin í verslunum Mohawks í Kringlunni og á Laugavegi og á bensínstöðvum N1. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.