Lífið

Brynja Jónbjarnardóttir heillar tískuheiminn

Ein myndanna af Brynju úr myndaþætti ljósmyndarans Toby Knott.
Ein myndanna af Brynju úr myndaþætti ljósmyndarans Toby Knott.
Myndaþáttur með fyrirsætunni Brynju Jónbjarnardóttur í aðalhlutverki hefur vakið mikla athygli í netheimum og hlotið mikið lof. Brynja er búsett í London þar sem hún sinnir fyrirsætuhlutverkinu.

Myndaþátturinn nefnist Portrait og er myndaður af hinum þekkta ljósmyndara Toby Knott og stíliseraður af Mörthu Ward. Myndirnar eru rómantískar og sumarlegar og á vefsíðunni Fashiongonerogue.com segir að einstakt útlit Brynju fái virkilega að njóta sín á myndunum. Þátturinn þykir svo vel heppnaður að hann hefur farið eins og eldur um sinu um Netið og birst á vel yfir tug erlendra tískublogga.

Ekki náðist í Brynju vegna anna, en hún er nýflutt til London þar sem hún hyggst dvelja um óákveðinn tíma. Brynja er á skrá hjá Eskimo Models og kveðst Andrea Brabin, eigandi skrifstofunnar, mjög stolt af stúlkunni.

„Að sjálfsögðu er maður stoltur af henni. Hún er tiltölulega nýflutt út en hefur verið að bóka verkefni nánast daglega, sem telst frábær árangur í þessum bransa."

Um myndaþáttinn segir Andrea: „Myndirnar eru sérstaklega fallegar og þetta virðist allt bara hafa smollið saman, stíliseringin, myndatakan og hið frísklega útlit Brynju. Útkoman er falleg og sumarleg."

Spurð hvort velgengni Brynju þýði að hún sé að mala gull segir Andrea það ekki gerast fyrr en fyrirsætur hafa unnið um hríð. „Fólk heldur það gjarnan, en það er ekki alveg þannig. Hún hefur nóg að bíta og brenna en í fyrstu eru þetta minni verkefni sem þær fá. Eftir því sem mappan verður betri og stærri verða verkefnin það líka."

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.