Lífið

Það þarf fagmenn í faginu til að fara ekki út af laginu

Fríður hópur Sigtryggur Baldursson, Kiddi í Hjálmum og Bragi Valdimar eru á bak við nýja tónlistarþætti á RÚV.
Fríður hópur Sigtryggur Baldursson, Kiddi í Hjálmum og Bragi Valdimar eru á bak við nýja tónlistarþætti á RÚV.
„Þetta er þáttur sem fjallar um yngri hljómsveitir og eldri tónlistarmenn. Smá samanburður á kynslóðunum," segir tónlistarmaðurinn Sigtryggur Baldursson.

Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir skömmu vinnur RÚV að nýjum sjónvarpsþáttum sem fjalla um tónlist. Sigtryggur Baldursson og Guðmundur Kristinn Jónsson, upptökustjóri og meðlimur Hjálma, verða umsjónarmenn þáttanna og þeim til halds og trausts verður Baggalúturinn Bragi Valdimar Skúlason ásamt fleirum.

Kiddi í Hjálmum.
Sigtryggur segir þá félaga ætla að fylgjast með tónlistarfólki að störfum, kíkja í hljóðver, í æfingahúsnæði og jafnvel út fyrir landsteinanna. „Við ætlum að fá að sjá ferðalögin með eigin augum," segir hann. „Fólk þarf að taka restina af flögunum úr búningsherberginu til að fá hádegismat daginn eftir. Það hljómar ekkert mjög glamúrus. Það eru alls konar skemmtilegar ranghugmyndir í gangi um meikið."

Þættirnir hefja göngu sína í sumar en samningurinn við þá félaga var handsalaður á miðvikudagsmorgun og vinnan hófst strax í kjölfarið. Sigtryggur segir eðlilegt að RÚV sinni þeirri skyldu að fjalla á vitrænan hátt um menningu í landinu. „Það má orða það þannig," segir hann. „Þessar tilraunir RÚV til að búa til menningarlega skemmtiþætti finnst mér ekki hafa risið hátt."

Bragi Valdimar Skúlason
Hann gagnrýnir að fagfólk hafi ekki verið fengið til að fjalla um menningu. „Hluti af vandamálinu er sá að það var ekki verið að láta tónlistarmenn fjalla um tónlistarmenn og myndlistarmenn fjalla um myndlistarmenn og svo framvegis," segir hann. „Það má gefa sér tíma til að fjalla um listirnar með aðeins meiri dýpt í staðinn fyrir að fleyta kerlingar. Og ég trúi því að það þurfi að hafa fagmann í faginu til að fara ekki út af laginu."atlifannar@frettabladid.is

Kiddi í Hjálmum og Bragi Valdimar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.