Erlent

Grænmetisóttinn heltekur Evrópu

Grænmetissali í Berlín. Þýska stjórnin kannar nú möguleika á að Evrópusambandið komi spænskum bændum til hjálpar. fréttablaðið/AP
Grænmetissali í Berlín. Þýska stjórnin kannar nú möguleika á að Evrópusambandið komi spænskum bændum til hjálpar. fréttablaðið/AP
Víða í Evrópu hafa skólar tekið allt grænmeti af matseðli mötuneyta sinna. Gúrkur hrúgast upp óseldar í verslunum og bændur segjast verða fyrir fjárhagslegu stórtjóni.

 

Allt þetta stafar af ótta við kólígerilinn skeinuhætta, sem dregið hefur 18 manns til bana í Þýskalandi og Svíþjóð. Nærri tvö þúsund manns hafa veikst af völdum hans.

 

Neytendur láta því eiga sig að leggja sér grænmeti til munns, í öryggisskyni að minnsta kosti. „Sjóðið það eða borðið það ekki,“ sagði nýrnasérfræðingurinn Rolf Stahl á blaðamannafundi í Hamborg í gær. „Það er mín persónulega ráðlegging.“

 

Flestir þeirra sem veiktust segjast hafa snætt grænmeti stuttu síðar. Ekki er vitað úr hvaða grænmeti gerillinn barst í fólk, en framan af var hann talinn hafa borist með gúrkum frá Spáni.

 

Spænskir bændur eru æfir og vilja bæði skýringar og skaðabætur frá Þjóðverjum, sem töldu sig geta fullyrt að gerillinn hafi borist frá Spáni. Nú, þegar ljóst er að spænsku gúrkurnar áttu ekki hlut að máli, segist Angela Merkel Þýskalandskanslari ætla að kanna hvort Evrópusambandið geti komið spænskum bændum tilhjálpar. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×