Erlent

Spánverjar krefjast skaðabóta

Rússnesk stjórnvöld bönnuðu í gær innflutning á grænmeti frá öllum ríkjum Evrópusambandsins.
Nordicphotos/AFP
Rússnesk stjórnvöld bönnuðu í gær innflutning á grænmeti frá öllum ríkjum Evrópusambandsins. Nordicphotos/AFP
José Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, gagnrýnir bæði Evrópusambandið og Þýskaland harðlega fyrir að nefna Spán sérstaklega sem líklegt upprunaland banvæns kólígerlafaraldurs í norðanverðri Evrópu.

Spænsk stjórnvöld krefjast skýringa og ætla að fara fram á skaðabætur vegna þess að fréttirnar urðu til þess að útflutningur á grænmeti frá Spáni til annarra Evrópuríkja stöðvaðist nánast í kjölfarið.

Zapatero segir að framkvæmdastjórn ESB hafi brugðist seint við þegar í ljós kom að kólígerillinn banvæni fannst ekki í gúrkunum frá Spáni, sem í fyrstu voru taldar vera skaðvaldurinn.

„Um leið og ráðherrann í Hamborg hafði útilokað að þetta hafi stafað af spænskum gúrkum þá hefði hún átt að bregðast hraðar við og af meiri festu,“ sagði hann.

Spænskir bændur eru æfir vegna málsins og efndu til mótmæla fyrir utan ræðismannsskrifstofu Þýskalands í Valencia í gær, þar sem þeir sturtuðu um 300 kílóum af káli, tómötum, gúrkum og öðru grænmeti á götuna.

Enn er ekkert vitað um uppruna gerilsins, sem sýkt hefur á annað þúsund manns og dregið hundruð manna til dauða á fáeinum dögum.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO staðfesti í gær að þetta tiltekna afbrigði gerilsins hefði aldrei sést áður.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×