Lífið

Vill hanga í himninum

Áslaug Rán Einarsdóttir og Aníta Hafdís Björnsdóttir ferðbúnar á leið frá Balí í Indónesíu með vængina á bakinu.
Áslaug Rán Einarsdóttir og Aníta Hafdís Björnsdóttir ferðbúnar á leið frá Balí í Indónesíu með vængina á bakinu.
„Við erum báðar með ódrepandi ferðabakteríu og sáum þarna tækifæri til að sameina tvö áhugamál," segir Áslaug Rán Einarsdóttir sem ásamt Anítu Hafdísi Björnsdóttur hefur ferðast um heiminn til að fljúga á svifvængjum á ólíkum stöðum í nafni kvenfrelsis.

„Við byrjuðum á að fara til Suðaustur-Asíu; Nepal, Indlands, Malasíu, Taílands og Indónesíu og flökkuðum þar um. Svo runnu peningarnir út, hlýtur að hafa komið gat á vasana hjá okkur, og leiðir skildi í fyrravor. Aníta varð eftir í Frakklandi en ég kom heim til Íslands og var hér um sumarið til að safna mér peningum," segir Áslaug Rán.

„En við hættum samt ekkert að fljúga þótt við höfum undanfarið gert það hvor í sínu lagi. Í vetur var ég aðallega við Miðjarðarhafið og í Norður-Afríku, mest í Marokkó, en Aníta í Frakklandi og Grikklandi, þannig að við höfum ekki hist í ár."

En hvenær hófst ævintýrið?

„Aníta byrjaði 2007 og dró mig eiginlega út í þetta. Ég fór á námskeið 2009 hjá Fisfélagi Reykjavíkur og sogaðist inn í þetta af fullum krafti alveg um leið, þannig að nú vil ég helst ekkert annað gera en hanga uppi í himninum og horfa niður. Þetta er mesta frelsistilfinning sem hægt er að hugsa sér. Það nær ekkert til þín þarna uppi, ekkert áreiti, þetta er algjört frí frá öllum áhyggjum."

Hvernig vaknaði sú hugmynd að tengja flugferðirnar við kvenfrelsi?

„Við sátum einhvern tíma nokkur uppi í fjalli og biðum eftir því að vind lægði svo við gætum flogið. Við þær aðstæður skapast oft mikil stemning og umræðurnar fara á flug. Við fórum að tala um þá tilfinningu sem fylgir því að fljúga. Undantekningarlaust fannst fólki flugið vera frelsandi; að svífa á milli skýjahnoðranna og skilja allar áhyggjur eftir á jörðu niðri. Út frá þessum umræðum tókum við Aníta þá ákvörðun að helga flugferðir okkar frelsi kvenna."

Áslaug Rán Einarsdóttir svífandi yfir Góa á Indlandi.
Meirihluti þeirra sem sækja námskeið hjá Fisfélaginu eru konur, kann Áslaug Rán einhverja skýringu á því?

„Nei, það er mjög óvenjulegt. Á flestum þeim stöðum þar sem við höfum flogið er ekki mjög algengt að konur séu í þessu sporti, þetta eru oftast að meirihluta til miðaldra karlar, en íslenskar konur hafa hrifist af þessu og síðustu tvö til þrjú árin hafa þær verið í meirihluta á öllum námskeiðum. Það eru einmitt að byrja námskeið núna í vikunni og ég hvet allar konur til að fara inn á fisflug.is og skoða hvort þetta sé ekki eitthvað sem hentar þeim."

Ævintýrinu er hvergi nærri lokið og í sumar ætla þær stöllur að fljúga yfir þvert Ísland. „Við ætlum að reyna að krossa landið þvert og endilangt á vængjunum," segir Áslaug Rán.

„Endanlegt ferðaplan er ekki komið, en um miðbik sumarsins munum við væntanlega leggja upp frá Kerlingarfjöllum og fara yfir landið fótgangandi og á flugi eftir því hvað aðstæðurnar bjóða upp á. Við munum sem sagt annað hvort bera vængina eða láta þá bera okkur. Það hefur ekki mikið verið flogið á þessum svæðum áður svo við vitum ekki alveg hverju má búast við."

Hægt verður að fylgjast með ferð þeirra stallsystra um Ísland í sumar á síðunni theflyingeffect.com.

fridrikab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.