Lífið

Í spor einhverfra

Jóhann Leó Linduson bjó til bók þar sem vandamál tengd einhverfu eru útskýrð. Fréttablaðið/Stefán
Jóhann Leó Linduson bjó til bók þar sem vandamál tengd einhverfu eru útskýrð. Fréttablaðið/Stefán
„Ég gerði bók um einhverfu,“ segir Jóhann Leó Linduson, nemi í grafískri hönnun, um útskriftarverkefni sitt. Jóhann Leó stefnir á að útskrifast úr grafískri hönnun nú í vor. Bókin ber heitið Í annarra manna spor og Jóhann segir að tilgangurinn með henni sé að útskýra á einfaldan hátt vandamál tengd einhverfu.

„Svipað efni er til á fleiri stöðum í löngum og þungum ritgerðum eða jafnvel ævisögum. Mig langaði að einfalda þetta efni og setja það nánast fram á barnamáli,“ útskýrir Jóhann sem segir bókina myndskreytta.

Inntur eftir því hvernig hann fékk hugmyndina að því að gera bók um einhverfu segir Jóhann: „Ég á einhverfan, yngri frænda sem ég hef passað í mörg ár,“ upplýsir Jóhann og bætir við að honum hafi ekki fundist hann vita nægilega mikið um einhverfu. „Þannig að ég nýtti bara tækifærið og las mér vel til.“

Að sögn Jóhanns er fjallað um vanda við úrvinnslu á skynboðum í bókinni. „Margir sem eru með einhverfu eru með skynúrvinnsluvanda sem þýðir að þeir taka ekki við skynboðum eins og þeir sem ekki eru einhverfir. Þeir meðtaka upplýsingar á annan hátt.“

Aðspurður segir Jóhann Leó ekki vita hvort bókin verði gefin út. „Ég er að reyna að láta gefa hana út. Ég er bara að læra inn á það ferli núna.“ - mmf






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.