Lífið

Úr tónlist í tískuna

Haraldur Leví Gunnarsson og kærasta hans, Edda Ýr Aspelund, opnuðu verslunina Lólu.
Haraldur Leví Gunnarsson og kærasta hans, Edda Ýr Aspelund, opnuðu verslunina Lólu.
Plötuútgefandinn Haraldur Leví Gunnarsson opnaði tískuverslunina Lólu við Laugaveg 55 ásamt kærustu sinni, Eddu Ýr Aspelund, í gær. Verslunin selur notaðan fatnað og er hver flík sérvalin af Haraldi og Eddu.

„Við ætluðum okkur að opna verslun síðasta sumar en það varð ekkert úr því þá. Við ákváðum því að kýla á þetta í sumar og höfum nú unnið hörðum höndum að því að koma öllu í stand. Við höfum staðið hér undanfarna daga með pensil í hönd og unnið að því að koma húsnæðinu í almennilegt stand," segir Haraldur Leví sem einnig er eigandi hljómplötuútgáfunnar Record Records og fyrrum trymbill hljómsveitanna Lödu Sport og Lifun.

Að hans sögn sér Edda Ýr að mestu um innkaupin fyrir verslunina en Haraldur Leví segist hafa aðstoðað við valið á karlmannafatnaðinum.

„Við fórum í ferð til Bretlands til að kaupa fyrstu pöntunina. Við versluðum allan daginn, bæði fyrir búðina og svo auðvitað eitthvað aðeins á okkur sjálf líka. Þetta var hörkupúl, get ég sagt þér," útskýrir Haraldur Leví.

Opnun Lólu var fyrir helgi og segjast þau spennt að sjá hvernig viðtökur viðskiptavina verði í nánustu framtíð. „Við erum rosalega spennt fyrir þessu öllu og getum ekki beðið eftir því að fá fólk í heimsókn til okkar," segir Haraldur Leví að lokum.

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.