Lífið

Hnakkurinn haggaðist ekki

Benedikt Brynleifsson úr Vinum Sjonna sat á hnakki þegar hann flutti lagið Coming Home í úrslitum Eurovision í Þýskalandi. „Þetta átti að vera tengingin við hestamennskuna sem var áhugamál Sjonna og tenging í myndbandið sem var gert í hlöðu," segir Benedikt.

Þórunn Erna Clausen, ekkja Sjonna, fékk hnakkinn lánaðan heima á Íslandi og hópurinn flaug svo með hann út. „Það kom á óvart hvað þetta var þægilegt," segir Benedikt spurður hvernig það hafi verið að sitja á hnakkinum. „Ég hélt að þetta yrði óþægilegt og að hann væri valtur en hann haggaðist ekki."

Benedikt var líkt við Ryan Giggs úr Manchester United meðan á keppninni stóð og var það ekki í fyrsta sinn sem honum er líkt við fótboltakappann. Sjálfur fylgist hann ekkert með fótbolta. „Tengdafjölskyldan mín er United-fólk þannig að ég skal bara halda með þeim," segir Benedikt og hlær.

Þetta var í annað sinn sem hann tekur þátt í úrslitum Eurovision því hann fór til Serbíu með Eurobandinu árið 2008. Þá fór hann ekki upp á svið líkt og á laugardaginn. „Núna var ég í fyrsta skipti að syngja á sviði. Auðvitað var það mikil áskorun fyrir mig, með þessa frábæru söngvara í kringum mig að standa sig."

Hér fyrir ofan má sjá Benedikt á sviðinu með Vinum Sjonna í Düsseldorf síðastliðin laugardag. Upptakan er frá belgíska ríkissjónvarpinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.