Lífið

Hera er opinber söngkona Mr. Gay World USA

Hera er elskuð og dáð af hommum og lesbíum í Bandaríkjunum. Fréttablaðið/Valli
Hera er elskuð og dáð af hommum og lesbíum í Bandaríkjunum. Fréttablaðið/Valli
„Ég vona að þetta vindi upp á sig. Þetta er besti bransinn til að byrja í því þetta eru „trendsetterarnir“,“ segir söngkonan Hera Björk Þórhallsdóttir.

Hera er sjóðandi heit í heimi samkynhneigðra í Bandaríkjunum um þessar mundir. Hún er opinber söngkona keppninnar Mr. Gay World USA og lag hennar, Je Ne Sais Quoi, er lag keppninnar. Undankeppnir hefjast víða um Bandaríkin í júní og Hera kemur fram á einhverjum þeirra. Þá kemur hún fram í lokakeppninni í janúar á næsta ári.

„Þetta er algjör lukkupottur fyrir mig,“ segir Hera hæstánægð. „Ég kann mjög vel við mig á þessum markaði og þetta er það besta sem gat komið út úr þessu öllu – og það á bara eftir að versna. Í góðum skilningi.“

Og ertu að verða rík af þessu?

„Þetta er ennþá á byrjunarstigi að því leyti. Peningarnir eru ekki farnir að streyma inn.“

Hera Björk hefur ástæðu til að brosa þessa dagana, en hún trúlofaðist nýlega ástinni sinni, rekstrarhagfræðingnum Halldóri Eiríkssyni og játar að hún svífi um á bleiku skýi. „Það er bara gott að vera til í dag. Það er ekki yfir neinu að kvarta,“ segir hún.

Hera kemur fram á sérstöku styrktarballi íþróttafélagsins Styrmis á Barböru annað kvöld, en herlegheitin eru til styrktar heimsmeistaramóti samkynhneigðra í sundi sem haldið verður í maí 2012 í Reykjavík. „Þeir eru fremstir í flokki, vinna hvert mótið á fætur öðru og eru alveg með‘etta,“ segir Hera, sem kemur einmitt fram á heimsmeistaramótinu í ár, en það fer fram á Havaí. Loks kemur Hera fram á djasstónleikum í Salnum í Kópavogi á föstudaginn í næstu viku. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.