Lífið

Getur hugsað sér sjónvarpsferil eftir fótboltann

Eiður Smári hefur sýnt flotta takta sem þulur hjá Sky og fór á kostum í beinni útsendingu fyrir leik Barcelona og Real Madrid í meistaradeild Evrópu á þriðjudagskvöldið.Fréttablaðið/Anton Brink
Eiður Smári hefur sýnt flotta takta sem þulur hjá Sky og fór á kostum í beinni útsendingu fyrir leik Barcelona og Real Madrid í meistaradeild Evrópu á þriðjudagskvöldið.Fréttablaðið/Anton Brink
„Þetta hefur þróast útí það að Sky hefur sett sig í samband við mig og athugað hvort ég væri laus með tilliti til æfinga-og leikjaplans,“ segir Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Fullham, í samtali við Fréttablaðið. Eiður fékk lofsamlega dóma á samskiptasíðunni Twitter eftir frammistöðu sína sem gestur í myndveri Sky Sports fyrir og eftir leik Barcelona og Real Madrid í meistaradeild Evrópu á þriðjudagskvöld.

Eiður þótt ákaflega hnyttinn í tilsvörum, varpaði fram skemmtilegum staðreyndum um leikmenn Barcelona og þá hrósuðu enskir twitterar honum í hástert fyrir enskukunnáttuna en Eiður lék auðvitað bæði undir stjórn Pep Guardiola og Jose Mourinho hjá Barcelona og Chelsea. Eiður getur ekki neitað því að sjónvarpsstarfið kitli eilítið þegar fótboltaferlinum ljúki, hann hafi gaman af þessu. „Þetta byrjaði aðeins í fyrra, þegar ég var hjá Tottenham, þá báðu þeir mig um að koma þegar Barcelona var að spila. Ég ákvað bara að slá til, prófa og sjá eitthvað nýtt því þetta var ekkert sem ég var búinn að spá í að gera. Menn voru bara almennt ánægðir með mig eftir þá frammistöðu og hafa hringt af og til og athugað hvort ég væri laus.“ Fyrrum landsliðsfyrirliði Íslands tekur þó skýrt fram að takkaskórnir góðu eigi eftir að vera á grasinu í dágóðan tíma enn, ferillinn sé síður en svo komin á endastöð. „Ég verð hins vegar ekki í fótbolta endalaust og ef það er eitthvað sem ég kann og veit eitthvað um þá er það fótbolti.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa aðrar sjónvarpsstöðvar í Bretlandi sóst eftir kröftum Eiðs og bandarískar líka. Íþróttastöð Fox var þannig með stutt innslag í hálfleik þar sem Eiður var í viðtali þannig að hróður leikmannsins fyrir framan tökuvélarnar berst víða. Það virðist því aðeins vera að stytta upp hjá Eið eftir erfitt tímabil því hann hefur einnig spilað síðustu þrjá leiki Fullham í úrvalsdeildinni eftir að verið fastur á bekknum hjá Stoke fyrir áramót. „Þetta hefur verið mjög erfitt, algjört leiðindatímabil, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Það er erfitt að sýna sitt besta þegar maður fær ekkert að spila en nú er maður farinn að brosa á ný,“ segir Eiður. Hann tekur þó engu sem gefnu og býr á hóteli þar til hans mál eru komin á hreint.

-freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.