Fótbolti

Eyjólfur: Margt jákvætt við okkar leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eyjólfur var ánægður með leik sinna manna þrátt fyrir tap.
Eyjólfur var ánægður með leik sinna manna þrátt fyrir tap. Mynd/E. Stefán
Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 landsliðs Íslands, var ánægður með leik sinna manna í gær þrátt fyrir 3-2 tap fyrir Úkraínu í vináttulandsleik ytra. Leikurinn var liður í undirbúningi beggja liða fyrir EM í Danmörku í sumar. Eyjólfur var án margra lykilmanna í gær þar sem tíu leikmenn sem eru gjaldgengir í liðið eru nú í A-landsliðinu fyrir leikinn gegn Kýpur í undankeppni EM 2012 á morgun.

Úkraína komst í 3-0 forystu í upphafi síðari hálfleiks en þeir Aron Jóhannsson og Björn Bergmann Sigurðarson minnkuðu muninn fyrir Ísland seint í seinni hálfleiknum.

„Það var margt jákvætt og gott við okkar leik,“ sagði Eyjólfur við Fréttablaðið. „Úkraína var með sitt besta lið og þrátt fyrir allt var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik. Við fengum okkar færi og áttum aldrei að vera undir í hálfleik,“ bætti hann við.

„Við vorum að halda boltanum vel og sækja upp kantana eins og lagt var upp með. Það vantar aðeins upp á á síðasta fjórðungnum hjá okkur en það kemur með æfingunni.“

Hann segir að þeir leikmenn sem fengu tækifærið í gær hafi staðið sig vel. „Þeir gerðu í raun okkur þjálfurunum mjög erfitt fyrir því þessir strákar sýndu að þeir vilja vera með í liðinu. Það er auðvitað bara jákvætt og greinilega fullt af efnilegum strákum að spila heima.“

Næsti leikur Íslands verður gegn Englandi ytra á mánudaginn en þeir ensku unnu 4-0 sannfærandi sigur á Dönum í Kaupmannahöfn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×