Erlent

Stjórnarmyndun gengur ekkert

Wouter Beke
Wouter Beke
Meira en ellefu stjórnmálamenn hafa reynt að koma saman ríkisstjórn í Belgíu frá því síðast var kosið til þings. Þær tilraunir hafa engum árangri skilað og landið hefur því verið án ríkisstjórnar í meira en fimm hundruð daga.

Að vísu er bráðabirgðastjórn starfandi í landinu, en hún hefur takmarkað umboð og á til dæmis erfitt með að koma í gegn nauðsynlegum efnahagsumbótum, sem Evrópusambandið krefst að verði orðnar að veruleika fyrir miðjan næsta mánuð. „Við erum enn að reyna,“ sagði Wouter Beke, leiðtogi Flæmska kristilega demókrataflokksins, eftir að leiðtogar sósíalista, frjálslyndra og kristilegra demókrata höfðu varið enn einni nóttinni í fundarhöld sem litlum árangri skiluðu.

Samkomulag strandar á ágreiningi flæmskumælandi og frönskumælandi stjórnmálamanna, sem deila um það hvernig völdin skuli skiptast milli héraða landsins og miðstjórnar í Brussel.

Jafnvel þótt gróft samkomulag hafi tekist í síðasta mánuði um aukin völd heim í héröðin hefur útfærslan dregist á langinn. Nokkur bjartsýni ríkir þó um að brátt fari að sjá fyrir endann á þessum langdregnu stjórnarmyndunarviðræðum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×