Innlent

Enn fleiri gætu fengið ákæru í málinu

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, hefur verið ákærður fyrir umboðssvik í störfum sínum fyrir bankann.
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, hefur verið ákærður fyrir umboðssvik í störfum sínum fyrir bankann.
Embætti sérstaks saksóknara hefur gefið út ákæru á hendur tveimur fyrrverandi starfsmönnum Glitnis fyrir stórfelld umboðssvik. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um að ræða þá Lárus Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og Guðmund Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis.

Ekki er útilokað að fleiri verði ákærðir fyrir aðkomu sína að sama máli.

Þeir eru ákærðir fyrir að misfara með fé bankans í lánveitingum tengdum félaginu Svartháfi. Bankinn lánaði 10 milljarða króna til félagsins snemma á árinu 2008, en daginn áður en lánin voru veitt, varð breyting á eignarhaldi Svartháfs þannig að Werner Ívar Rasmusson, faðir Karls og Steingríms hjá Milestone, varð eini eigandi félagsins.

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis segir að þessi lánveiting virðist hafa verið til þess fallin að hún komi ekki fram hjá raunverulegum lántakanda, Milestone, sem var með mjög háa skuldastöðu við bankann. Þannig kæmi það ekki fram undir Milestone í uppgjörum á útreikningi á áhættugrunni útlána gagnvart eigin fé bankans.

Eftir því sem heimildir Fréttablaðsins herma gætu fleiri verið ákærðir í framhaldinu en enn þá hefur ekki verið tekin afstaða til þess.

Lárus var á dögunum úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna annarra mála sem tengjast störfum hans hjá Glitni.

Guðmundur Hjaltason lét af störfum hjá Glitni rúmum tveimur mánuðum eftir að lánið til Svartháfs var afgreitt og hóf störf hjá Milestone. Hann stofnaði svo ráðgjafafyrirtæki sem vann meðal annars fyrir fjármálaráðuneytið að endurskipulagningu sparisjóðanna. Það gekk svo inn í Sögu fjárfestingabanka og þaðan inn í MP banka þar sem Guðmundur er starfsmaður í dag.- þj, sh, þsj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×