Lífið

Segir mittið ekki minnkað með myndvinnslubrögðum

Forsíðumynd símaskrárinnar er til vinstri og skjáskot af auglýsingu frá símaskránni er til hægri. Egill segir þjöppun á þeirri síðarnefndu hafa orðið til þess að hann virðist breiðari en hann sé í raun og veru.
Forsíðumynd símaskrárinnar er til vinstri og skjáskot af auglýsingu frá símaskránni er til hægri. Egill segir þjöppun á þeirri síðarnefndu hafa orðið til þess að hann virðist breiðari en hann sé í raun og veru.
„Það eru jafn miklar líkur á því að Þykki sé fótósjoppaður á símaskránni og að Stallone hafi verið fótósjoppaður framan á plakatinu fyrir Rambo 3," segir þúsundþjalasmiðurinn Egill Einarsson.

Vefsíðan Flickmylife.com birti á dögunum myndir sem sýndu muninn á Agli framan á símaskránni annars vegar og í kynningarmyndbandi fyrir sömu bók hins vegar. Stór munur er á myndunum, en færslan er birt undir fyrirsögninni Photoshop dagsins. Þar með eru líkur leiddar að því að myndvinnsluforrit hafi ekki aðeins verið notað til að vinna myndina, eins og gert er við allar prentaðar myndir, heldur einnig til að minnka mitti Egils og skerpa á vöðvabyggingunni.

Hann vísar meintum myndvinnslutöfrabrögðum á bug og segir auðvelt að svara færslunni á Flickmylife. „Þar er notað skjáskot úr myndbandi til að bera saman við myndina á forsíðu símaskrárinnar," segir hann. „Myndbandið var tekið í 4:3 sniði og síðan þrýst niður í 16:9 snið við útsendingu. Stóri G-maðurinn þjappaðist þar af leiðandi við það og virkar breiðari."

Egill segir myndvinnsluforritið Photoshop aðeins hafa verið notað til að litaleiðrétta myndina ásamt því að skerpa liti og annað.

„Ég er 95 kíló á myndinni og 3,6 prósent fita. Daginn sem ég ranka við mér teiknandi á mig kviðvöðva hengi ég mig," segir Egill. „Eina liðið sem hefur haldið því fram að Þykki sé fótósjoppaður er rækjusamlokurnar sem eru með allt niður um sig í ræktinni. Það hefur ekki einn maður í góðu formi haldið þessu fram. Tók lunch með Grantaranum [Arnari Grant] í gær, hann minntist ekki einu orði á þetta."

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.