Enski boltinn

Ekkert tilboð komið í Neymar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Umboðsmaður Brasilíumannsins Neymar segir að það sé rangt sem hefur verið haldið fram í enskum fjölmiðlum að Chelsea hafi lagt fram nýtt tilboð í kappann.

Neymar er nítján ára framherji en hann er á mála hjá Santos í heimalandinu. Hann er talinn einn efnilegasti leikmaður heims og er Chelsea sagt hafa lagt fram tilboð upp á 26 milljónir evra.

Hann hefur einnig verið orðaður við spænsku stórveldin Real Madrid og Barcelona.

„Þetta eru bara vangaveltur frá Bretlandi og þær eru út í hött,“ sagði umboðsmaðurinn Wagner Ribeiro við fjölmiðla í Brasilíu.

„Santos hafnaði tilboði upp á 35 milljónir evra í haust. Af hverju myndi Roman Abramovich leggja fram tilboð upp á 26 milljónir í dag. Þetta er hlægilegt.“

Ribeiro segir að Neymar fari minnst á 45 milljónir punda en að Santos þurfi þá líka að vera reiðubúið að láta hann fara.

„Eins og er vill Santos ekki selja hann.“

Neymar mun spila með landsliði Brasilíu á Copa America í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×